„Heppilegt að það fór að rigna“

Eldur varð í sumarbústað á Snorrastöðum í Laugardal í morgun.
Eldur varð í sumarbústað á Snorrastöðum í Laugardal í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Eldur kviknaði í sumarbústað á Snorrastöðum í Laugardal í morgun. Erfitt var fyrir slökkvilið að komast að vettvangi og húsið stóð í ljósum logum er slökkvilið hóf slökkvistörf. Litlu munaði að gróðurinn umhverfis húsið brynni en að sögn slökkviliðs var rigningin mikil himnasending.

Sunnlenska.is greindi fyrst frá brunanum.

„Húsið var alelda þegar við komum á vettvang,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við mbl.is. Hann segir að erfitt hafi verið fyrir slökkvilið að komast að bústaðnum þar sem aðstæður á vegum eru almennt slæmar á þessum árstíma.

„Ansi víða eru vegir á sumarbústaðasvæðum ekki burðugir og þá sérstaklega ekki fyrir tæki sem slökkviliðið er með, þ.e.a.s. þung tæki,“ segir Pétur. „Við komum dælubílunum okkar að en þó tæplega. Þeir sukku á kaf í drullu.“

Útkallið barst slökkviliðinu klukkan 6.45 í morgun og slökkvistörf voru hafin um tuttugu mínútum síðar.

Hann segir þó að slökkvilið hafi ekki náð að koma tankbílum á vettvang og þurfti því að leggja heildarslöngulagnir sem voru hátt í kílómetra að lengd til þess að dæla vatni.

Ekki var hægt að bjarga húsinu en umhverfið slapp.
Ekki var hægt að bjarga húsinu en umhverfið slapp. Ljósmynd/Aðsend

Vilja ekki þurfa að standa í skógarhöggi

Pétur vill brýna fyrir fólki að huga vel að sínum heimagarði og að fólk kanni hvort vegirnir henti slökkviliði og hvort gróður hafi nokkuð vaxið fyrir vegina.

Hann segir að það sé mikilvægt að stór tæki slökkviliðsins komist að, „svo að við verðum ekki að byrja að fara í skógarhögg til þess að komast að húsunum,“ segir Pétur.

Pétur segir að það hafi ekki þurft að grípa til skógarhöggs í morgun, en að það hafi nokkrum sinnum áður reynst nauðsynlegt.

Gróðurinn slapp

Húsið brann til kaldra kola en það var mikil heppni að rigningin kom í veg fyrir að gróðurinn tók að brenna.

„Í þessu tilfelli þrátt fyrir þennan sorglega atburð fyrir húseigendur, að húsið skuli brenna, þá er heppilegt að það fór að rigna skömmu eftir að slökkvistarf hófst því þarna er mikil trjárækt,“ segir hann.

“Allt fjallið er einn stór skógur. Ef við hefðum misst þetta í gróður veit ég ekki hvernig þetta hefði farið.“

Var engu bjargandi?

„Ekki nema öllu umhverfinu.“

Enginn var í bústaðnum þegar eldurinn varð

„Það var enginn í bústaðnum, en þegar við fáum útköll í bústað á þessum tíma dags þá höfum við alltaf miklar áhyggjur að fólk sé í húsunum,“ segir Pétur.

Hann segir að ekki sé hægt að segja til um hvar bálið átti upptök sín og að lögreglan á Suðurlandi sjái nú um rannsókn málsins. 

Oft má kenna rafmagni um slíka elda

Í mars var frá því greint að sumarbústaður hafi brunnið til kaldra kola en þá var heldur enginn viðstaddur í bústaðnum.

Aðspurður hvað leiði til þess að eldur kvikni í bústöðum þar sem enginn er viðstaddur segir hann að það sé í mörgum tilfellum rafmagn sem sé sakavaldur. Enn er þó ekki víst að umræddur bruni hafi orsakast af rafmagni.

„Án þess að ég sé að segja um þetta tilfelli, er þetta oft út frá rafmagni á einn eða annan hátt,“ segir Pétur „Stundum vegna þess að það hefur flætt inn í bústaði og eitthvað slegið saman. Eða að fólk er að kynda með rafmagni og einhver rafmagnsbúnaður klikkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert