Manninum hefur verið sleppt

Ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum og …
Ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum og stúlkan er komin heim til Vestmannaeyja. Samsett mynd

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir karlmanni sem handtekinn var við höfnina í Reykjanesbæ í gær.

Málið er nú til rannsóknar en Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir að ekki hafi þótt tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald eftir að maðurinn var tekinn til skýrslutöku. 

Stúlkan heil á húfi

Maðurinn var skipverji á Grímsnesi GK-555 og lét lögregla snúa skipinu til hafnar síðdegis í gær vegna gruns um að 15 ára gömul stúlka væri um borð í bátnum. Stúlkunnar hafði verið leitað í gær. 

Jóhannes segir að stúlkan sé komin aftur til síns heima í Vestmannaeyjum heil á húfi. Segir hann málið hafa verið unnið með barnaverndarnefnd. Spurður hvort stúlkan hafi farið af fúsum og frjálsum vilja með manninum sagðist hann ekki treysta sér til að svara því að svo stöddu.

Karlmaðurinn sem um ræðir á sögu um ofbeldisbrot, bæði í Reykjavík og í Vestmannaeyjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert