Með barnaníðsefni og handtekinn á leið til vinnu

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karlmann á fertugsaldri fyrir kynferðisbrot með því að hafa ítrekað skoðað myndir og myndskeið sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.

Maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 17. mars en var birtur á föstudag, að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi ákært manninn í september fyrir fyrir kynferðisbrot með því að hafa um nokkurt skeið fram 18. júlí 2019, ítrekað skoðað myndir og myndskeið sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni.

Fram kemur í ákærunni að á fartölvu hafi fundist 99 slíkar ljósmyndir í eyddum skrám og ummerki um vefvöfrun á slíku myndefni og á farsíma fundust 286 slíkar myndir í flýtiminni símans, en lögreglan lagði hald á munina þegar maðurinn var handtekinn í Reykjavík.

Urðu vör við barnaníðsefni

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að lögreglu hafi borist tilkynning að maðurinn, sem var starfsmaður ónefnds fyrirtækis, hefði aðgang og not af fartölvu, þar sem vart hefði orðið við barnaníðsefni. Um væri að ræða efni sem viðkomandi hefði fengið sent frá öðrum aðilum. Efnið væri ýmiss konar og hluti þess sýndi börn undir 15 ára aldri, ýmist fáklædd eða nakin.

Sagði málið tengjast vinnudeilum

Maðurinn var handtekinn er hann var að mæta til vinnu en hann neitaði sök fyrir dómi. Hann taldi að barnaníðsefnið hefði verið sett inn í tækin í gegnum eftirlitskerfi sem sett voru upp í tækjunum á vinnustaðnum, auk þess sem hann taldi að miklar deilur á vinnustaðnum vera ástæðu þessara aðgerða.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að ekkert hafi komið fram í málinu sem sýni fram á að aðrir en maðurinn hafi getað sett barnaníðsefnið í tölvuna. Það sama eigi við um símann, þ.e. ekkert sem leiði líkur að því að einhverskonar búnaði hafi verið komið fyrir í síma mannsins sem valdi því að hægt sé að hlaða inn barnaníðsefni.

Því þótti hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru.

Þá gerði dómstóllinn farsímann, fartölvuna og myndefnið upptækt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert