Komið er á samkomulag um kaup eigenda Hótel Geysis í Biskupstungum um kaup á nærliggjandi jörð, Neðri-Dal. Geysir er í Haukdal og þar um tveimur kílómetrum sunnar og neðar í landinu er Neðri-Dalur, 1.200 hektara jörð sem er fjalllendi að stórum hluta.
Jarðhiti og nálægð við fjölfarinn veg og vinsæla viðkomustaði hefur átt sinn þátt í að skapa áhuga á Neðri-Dal, en jörðin hefur verið föl í nokkur ár.
Árið 2017 var til dæmis greint frá því í fjölmiðlum að Kínverjar vildu kaupa jörðina, sem á þeim tíma var auglýst á 1,2 milljarða kr. Ekkert varð af þeim viðskiptum en kaup Geysisfólks sem fóru í gegnum fasteignasöluna Mikluborg voru leidd til lykta í síðustu viku.
Kaupverð nú er ekki gefið upp, en þeir sem selja eru átta bræður fæddir og uppaldir í Neðri-Dal. Starfsemi Hótel Geysis og annað henni tengt er eign fjölskyldu sem lengi hefur verið með ferðaþjónustu í Haukadal. Geysir, hverinn frægi, er þar í bæjarhlaði og aðeins um 10 kílómetrar eru að Gullfossi. Allir þessir staðir eru á Gullna hringnum svonefnda.