„Öllum brugðið við svona frásögn“

Sigríður Dóra segir að tækifærið verði notað til að fara …
Sigríður Dóra segir að tækifærið verði notað til að fara yfir samskipti við sjúklinga og skerpa á verkferlum. Ljósmynd/Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir alla vilja draga lærdóm af sögu Helenu Gylfadóttur, sem greindist með fjórða stigs krabbamein eftir að hafa ítrekað leitað til heimilislæknis í rúmt ár vegna þrálátra verkja í baki og mjöðmum. Það vilji enginn lenda í sömu stöðu.

Helena sagði sögu sína í Sunnudagsmogganum um helgina en þar kom fram að heimilislæknirinn hefði hvorki hlustað almennilega á hana né látið framkvæma rannsóknir.

Það var ekki fyrr en hún komst ekki lengur fram úr rúminu vegna verkja í byrjun ársins, og var flutt með sjúkrabíl upp á bráðamóttöku, að hún var loksins sett í röntgenmyndatöku þar sem komu í ljós meinvörp í hryggnum og samfallsbrot. Síðar kom í ljós að um brjóstakrabbamein var að ræða.

Málið kom ekki upp innan heilsugæslunnar 

Helena sagðist mjög ósátt við að ekki hefði verið hlusta á hana, en hún vildi koma í viðtal til að vekja fólk til umhugsunar. Mögulega gæti saga hennar bjargað mannslífum.

Inga Lára, systir hennar, sem var með henni í viðtalinu sagði að þær vildu fá lækna til að endurhugsa framkomu sína og samskipti við sjúklinga.

Sigríður Dóra segir tækifærið svo sannarlega verða notað til að fara yfir samskipti lækna við sjúklinga og skerpa á verkferlum. Slíkt sé gert á reglulegum fundum innan heilsugæslunnar

„Við erum alltaf að vinna í að bæta verklag og ég held að það muni allir skoða þetta mál og sjá hvaða lærdóm megi draga af því. Við erum alltaf með reglulega fundi og alltaf verið að endurskoða ferla. Það er enginn sem vill lenda í þessari stöðu,“ segir Sigríður Dóra í samtali við mbl.is. Hún tekur þó fram að mál Helenu hafi ekki komið inn á borð heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það hafi ekki komið upp hjá fyrirtækinu.

Hún gerir ráð fyrir að þetta einstaka mál rati inn á borð til embættis landlæknis og fari í skoðun þar. „Þetta er eitthvað sem landlæknir verður að skoða, hvað fór úrskeiðis, og mun án efa gera.“

Helena Gylfadóttir hefði getað fengið krabbameinsgreiningu mun fyrr ef læknir …
Helena Gylfadóttir hefði getað fengið krabbameinsgreiningu mun fyrr ef læknir hefði hlustað á hana, en hún fór ítrekað til hans þar sem hún lýsti sárum verkjum í baki. mbl.is/Ásdís

Verið að skerpa á ferlum vegna heilsuveru

Þá segir hún nú standa yfir endurskoðun á notkun heilsuveru í samskiptum við sjúklinga og verið sé að skerpa á því að fólk komi í skoðun til læknis.

„Við erum að fara yfir öll mál varðandi heilsuveru því nú er mikið af samskiptum þar. Við erum að skerpa á þeim ferlum að fólk komi frekar, en það er erfitt að svara fyrir einstakt tilvik. En við förum að sjálfsögðu yfir þetta allt því við viljum ekki lenda í svona.“

Aðspurð hvort það mikla álag sem hefur verið á heilsugæslunni og starfsfólki þar, geti mögulega leitt til þess að læknum yfirsjáist eitthvað sem þeir hefðu annars geta áttað sig á, segir Sigríður ekki hægt að kenna einhverju einu um.

„Vissulega er búið að vera mikið álag en við viljum öll vinna vinnuna okkar vel engu að síður. Þannig ég myndi ekki skrifa þetta á það. Við eigum alltaf hafa tíma til að hitta fólk og fara yfir málið. Þarna hefur bara eitthvað farið úrskeiðis í samskiptum milli hennar og þessa heimilislæknis og hann verður að svara fyrir það, og gerir það án efa.“

„Svona getur verið óskaplega lúmskt“

Hún segist auðvitað ekki vita hvað hafi nákvæmlega farið á milli Helenu og hennar heimilislæknis, en krabbamein geti verið lúmskt.

„Svona getur verið óskaplega lúmskt og erfitt að greina, en það er enginn sáttur með að þessi staða sé komið upp,“ segir Sigríður Dóra.

„Það sem læknar vilja gera þegar það koma svona ítrekaðar kvartanir, kannski óljósar, að þá þarf maður að hitta viðkomandi og fara yfir málin og reyna að átta sig. Það er öllum brugðið við svona frásögn og vilja gera betur. En við getum ekki brugðist við þessu erindi því þetta er ekki hjá okkur,“ ítrekar hún.

Sigríður Dóra tekur þó fram að á öllum heilsugæslustöðvum sem heyri undir heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fundi starfsfólk vikulega og fari yfir þau mál sem eru gangi hverju sinni. Þá eru reglulega haldnir stærri fundir og fundir með stjórnendum, þannig það gefast fjölmörg tækifæri til að fara yfir verklag og bæta það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert