Slagviðri á föstudaginn langa

Ekki er víst að það verði regnhlífarveður á föstudaginn langa.
Ekki er víst að það verði regnhlífarveður á föstudaginn langa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Sveinbjörnsson veður­fræðing­ur, sem heldur úti veðurvefnum Bliku, segir að veðurkortin sýni að samgöngur verði í fínu lagi yfir páska.

„Ekki eins og stundum er um páska. Einhverjir dagar með hríðarveðri og erfiðleikum.“

Einar segir nokkra rigningardaga fram undan en að skírdagur skeri sig úr fyrir að vera besti dagurinn og að þá verði hæglátt veður.

„Það er spáð lægð á föstudaginn langa með suðaustan jafnvel stormi og slagveðri,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Spá Einars á Bliku:

Miðvikudagur

Búast má við kólnandi veðri. Það snýst í NA-átt á Vestfjörðum og þar snjóar eitthvað á fjallvegum, einkum þegar frá líður. Annars má búast við fremur hægri SV-átt.

Suðvestan- og vestan til má búast við slydduéljum á heiðum, einkum um kvöldið og nóttina. Það hvítnar um nóttina. Um austanvert landið léttir til í hægum vindi og frystir.

Skírdagur

Gera má ráð fyrir hæglátu veðri. Suðvestan- og vestan til eru líkur á minniháttar éljum og slydduéljum á láglendi.

Úrkomulaust verður norðan og austanlands og þar fyrirtaks útivistar- og ferðaveður. Hiti verður á bilinu 1 til 3°C að deginum á láglendi en annars um eða rétt undir frostmarki.

Föstudagurinn langi

Norðan- og austanlands má búast við ágætis veðri og hita um frostmark. Annars er spáð lægð úr suðvestri. Þá má búast við slagveðri og SA-átt, jafnvel stormi sunnan- og vestanlands. Það hlýnar í veðri, hvessir og rignir um land allt þegar skilin fara norður og austur yfir landið síðdegis.

Laugardagur

Spáð er eindreginni og allhvassri S-átt með þíðu um land allt. Víðast verður rigning, einkum framan af degi.

Nær samfelld rigning verður sunnan- og suðaustanlands, allt austur á firði. Búast má við þurrki yfir daginn norðan heiða.

Páskadagur

Spáð er skilum nýrrar lægðar úr suðri með allhvassri A- og SA-átt. Búast má við rigningu sunnan- og vestanlands mestallan daginn, en þurrar og með hnúkaþey norðan- og norðaustanlands. Eins að mestu þurrt á Vestfjörðum.

Annar í páskum

Það dregur talsvert úr spágetunni en allar líkur eru samt á því að víðast verði áfram fremur milt á landinu. Snjór á fjallvegum verður að teljast frekar ólíklegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert