„Þetta íslenska spjall sem maður saknar“

Núvitund íslenskra kvenna skerpt yfir báli við Sognsvatnið í Ósló, …
Núvitund íslenskra kvenna skerpt yfir báli við Sognsvatnið í Ósló, sr. Inga Harðardóttir, prestur Íslensku kirkjunnar í Noregi, er lengst til hægri. Ljósmynd/Pálína Ósk Hraundal

„Þetta gekk svo vel síðast að við vorum beðin um að halda aftur svona viðburð en þarna er vettvangur fyrir ólíkt fólk að hittast og eiga góða stund saman,“ segir Pálína Ósk Hraundal, menningarfulltrúi Íslensku kirkjunnar í Noregi, í samtali við mbl.is um viðburð sem þær séra Inga Harðardóttir, prestur safnaðarins, kalla „núvitund yfir báli“ og fór að þessu sinni, nú fyrir helgina, fram við Sognsvatnið í Ósló.

„Þetta er svo opið fyrir alla, að hittast við bál úti í skógi,“ heldur Pálína áfram, „Inga leiddi hugleiðslu yfir bálinu og svo vorum við með það sem við köllum sálarlist, fólk teiknaði myndir við bálið meðan á hugleiðslunni stóð og ég tók nokkrar myndir á meðan,“ segir menningarfulltrúinn sem raunar er þekktur ljósmyndari þótt hún reyni að gera sem minnst úr því í viðtalinu, jafnvel beina talinu lymskulega að öðru.

Sálarlist viðstaddra, myndir teiknaðar á meðan sr. Inga leiddi hugleiðsluna …
Sálarlist viðstaddra, myndir teiknaðar á meðan sr. Inga leiddi hugleiðsluna við bálið. Ljósmynd/Pálína Ósk Hraundal

„Og bara baða okkur í móðurmálinu“

„Í daglegu lífi Íslensku kirkjunnar fer fram þetta íslenska spjall sem maður saknar svo mikið. Það eru margir Íslendingar búsettir hér í Noregi sem tala sjaldan íslensku og á viðburðum Íslensku kirkjunnar í Noregi er kominn frábær vettvangur þar sem fólk getur komið saman og talað sitt móðurmál,“ segir Pálína.

Hún segir það mjög gefandi að geta skapað slík tækifæri, hvort tveggja fyrir börn og fullorðna, til að rækta „já, og bara baða okkur í móðurmálinu“, segir Pálína og bætir því við að það þurfi þó ekki að ganga út á neitt annað eða meira en að spjalla um daginn og veginn, eitthvað sem fólk geri ekki endilega þegar það er statt í sínu venjulega umhverfi í Noregi.

Sognsvatn er rómað fyrir náttúrufegurð og þangað má taka innanbæjarlestina …
Sognsvatn er rómað fyrir náttúrufegurð og þangað má taka innanbæjarlestina frá miðbæ Óslóar, nokkurra mínútna ferðalag út í guðsgræna náttúruna. Ljósmynd/Pálína Ósk Hraundal

„Í Ólafíustofu í Ósló, sem er skrifstofa Íslensku kirkjunnar í Noregi, eru margir viðburðir haldnir og þar fer oft fram þetta þjóðlega spjall. Verið að tala um veðrið og hvað er að gerast á Íslandi og þessi gömlu góðu orðatiltæki notuð sem maður notar sjaldan dags daglega sem er svo æðislegt. Sérstaklega fyrir öll tvítyngdu börnin sem sækja starfið okkar. Þarna eru frábær lærdómstækifæri fyrir þau að tileinka sér íslenskuna,“ segir Pálína.

Sunnudagaskólinn gjarnan við vatnið

Kirkjustarfið er að hennar sögn með öflugt æskulýðsstarf og hefur haldið sunnudagaskóla nokkrum sinnum utandyra og þá verður Sognsvatnið oft fyrir valinu.

Töluvert ólíkur blær er yfir umhverfinu að sumarlagi en þá …
Töluvert ólíkur blær er yfir umhverfinu að sumarlagi en þá er sunnudagaskóli Íslensku kirkjunnar í Noregi gjarnan haldinn við vatnið og ýtt úr vör að kennslu lokinni. Ljósmynd/Pálína Ósk Hraundal

„Við héldum einmitt einn sunnudagaskóla við Sognsvatn hérna í vetur og svo fóru krakkarnir á skauta á eftir,“ segir hún frá en sunnudagaskólinn hefur einnig átt sína bækistöð við vatnið að sumarlagi og þá siglt út á SUP-brettum að kennslu lokinni.

„Við reynum að nýta það sem við höfum, á haustin eru tónlistarsmiðjur en æskulýðsfulltrúinn okkar er menntaður kórstjóri, fiðluleikari og söngkona,“ segir Pálína Ósk Hraundal, menningarfulltrúi Íslensku kirkjunnar í Noregi, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert