Þungar hömlur í 20 ár vegna riðu

Samkvæmt lögum mun Miðfjarðarhólf vera flokkað undir sýkt varnarhólf næstu …
Samkvæmt lögum mun Miðfjarðarhólf vera flokkað undir sýkt varnarhólf næstu tuttugu ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þungar hömlur verða lagðar á flutninga í Miðfjarðarhólfi næstu 20 árin vegna riðu sem greindist í búfé í Bergsstöðum við Hvammstanga. Fyrir dyrum stendur að lóga 690 ám á bænum vegna sjúkdómsins.

„Þetta er fyrsta skipti sem þetta greinist í þessu varnarhólfi. Þá breytast þær reglur sem gilda um flutning fjár og þá hluti sem flytja má á milli bæja,“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirlæknir hjá Matvælastofnun, í samtali við mbl.is. „Nú er það bara meira og minna allt bannað.“

Riða er hægfara og ólæknandi heilahrörnunarsjúkdómur sem dregur dýr alltaf til dauða. Sigurborg segir að helstu einkenni séu þau sem verka á taugakerfið, t.d. skerðing í göngulagi, kláði og skjálfti.

„Þessar hömlur gilda núna næstu tuttugu árin.“ segir hún en samkvæmt lögum þurfa tveir áratugir að líða frá síðasta riðusmiti í til þess að sýkt varnarhólf fái að flokkast aftur sem ósýkt. Miðfjarðarhólf mun því ekki teljast ósýkt fyrr en í fyrsta lagi árið 2043.

Einkenni taka allt að fimm ár að gera vart við sig

„Við erum núna í þessum töluðu orðum að vinna í smitrakningu frá þessum bæ.“ segir Sigurborg. Hún segir að riða sé frábrugðin örðum sjúkdómum að því leyti að hún hafi lengri meðgöngutíma en margir aðrir sem finnast í fé.

„Frá því að smitefni berst í einstakling og þar til einkenni koma fram geta liðið margir mánuðir– að jafnaði tvö ár en getur verið allt að fimm ár,“ segir hún. Þannig geti smitrakningin verið mjög víðtæk og tekið afar langan tíma.

Sigurborg segir að bóndi á Bergsstöðum hafi tilkynnt MAST um að veikar kindur sýndu einkenni um heilahrörnun. Síðan hafi það komist í ljós þegar sýni dýrum væri tekið að um hefðbundna riðu væri að ræða.

Aflífa þarf hvert dýr við sýnatöku

„Smitrakningin felur það í sér að við þurfum að rekja hvert fóðurdýr frá þessum bæ og sýnataka felur í sér að að aflífa dýrið og taka úr því sýni úr heila,“ segir Sigurborg. „Fyrst og fremst er verið að rekja ferðir lifandi dýra, þ.e.a.s. frá þessum bæ til annarra bæja.“ segir hún.

Hún segir að langalgengasta smitleiðin sé frá einu dýri í annað. Þó geti ýmislegt annað borið með sér smit, svo sem tæki, tól og maðurinn sjálfur. Fólk getur þó ekki sjálft smitast af sjúkdómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert