Skipstjórinn á Grímsnesi GK-555, Sigvaldi Hólmgrímsson, segir að hvorki hann né aðrir í áhöfninni hafi vitað að stúlkan, sem fannst í bátnum, væri þar um borð. Skipverji á Grímsnesi var handtekinn við höfnina í Reykjanesbæ í gær vegna þess að um borð var 15 ára gömul stúlka sem leitað hafði verið í Vestmannaeyjum.
Manninum, sem á brotaferil að baki, var sleppt að lokinni skýrslutöku og segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, að ekki hafi þótt tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum. Lögregla rannsakar nú málið.
Sigvaldi kveðst í samtali við mbl.is hafa vitað af brotaferli mannsins vegna fjölskyldutengsla.
Hann segir sem áður að hann hafi ekki vitað að stúlkan hafi verið um borð, en þegar hann spurðist fyrir um hana hafi maðurinn sagt hana vera um borð.
Þau hafi svo komið upp og verið uppi við á meðan áhöfnin kláraði að draga inn. Svo var siglt aftur til hafnar.
Hann segir að maðurinn muni ekki halda áfram störfum hjá útgerðinni.
Maðurinn var í apríl árið 2020 dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir brot gegn tveimur fyrrverandi kærustum sínum.
Maðurinn var dæmdur fyrir hrottalegt ofbeldi í garð fyrrverandi kærustu sinnar sem þá var sautján ára sem og hótanir í garð barnsmóður sinnar sem hann kynntist þegar hún var fjórtán ára og hann sautján.
Var dómurinn mildaður vegna aldurs hans, en hann var rúmlega tvítugur þegar hann framdi brotin. Þá játaði hann einnig á sig brotin.