Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi ákveðið að aflýsa óvissustigi almannavarna vegna snjóflóða í Neskaupstað. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Kemur þar enn fremur fram að Veðurstofa Íslands hefur einnig aflýst óvissustigi sínu vegna hættu á snjóflóðum og krapaflóðum á Austfjörðum.
Við taki umfangsmikil verkefni við hreinsun og endurreisn samfélagsins eftir því sem greint er frá í tilkynningunni. Segir þar einnig að þjónustumiðstöð almannavarna sé starfrækt í Neskaupstað og verði opin eins lengi og hennar verði þörf.
„Verkefni þjónustumiðstöðvar felast í stuðningi við íbúa og aðra sem á einhvern hátt hafa orðið fyrir áhrifum ofanflóða og ofanflóðahættu á Austfjörðum. Stuðningurinn felur meðal annars í sér upplýsingagjöf og fræðslu af ýmsu tagi og Rauði krossinn mun halda áfram að bjóða upp á sálfélagslegan stuðning í þjónustumiðstöðinni,“ segir að lokum.