Pyntuðu mann en ganga enn lausir

Tveir menn sem bundu mann fastan og pyntuðu hann og …
Tveir menn sem bundu mann fastan og pyntuðu hann og skildu hann eftir nær dauða en lífi ganga nú lausir eftir að Landsréttur hafnaði kröfu lögreglu um framlengingu gæsluvarðhalds. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir menn sem grunaðir eru um manndrápstilraun voru látnir lausir úr gæsluvarðhaldi í gær. Á myndbandi sáust viðkomandi frelsissvipta mann og pynta hann. Landsréttur hafnaði kröfu lögreglu um að framlengja gæsluvarðhald um fjórar vikur til viðbótar.

Maðurinn var bundinn á bæði höndum og fótum, látinn afklæðast og var ítrekað hýddur með belti. Því til viðbótar var hann stunginn með stálröri og laminn oft. Auk þess var tá á skó sparkað eða troðið í endaþarm mannsins.

Rúv greindi fyrst frá þessu.

Myndbönd til af nær öllum pyntingunum

Atvikið sem um ræðir átti sér stað fyrir tveimur mánuðum í húsi við Vatnagarða. Talið er að um einhvers konar skuld hafi verið að ræða. Myndskeið voru tekin af nær öllum pyntingunum og lögregla hefur nú í um tvo mánuði staðið að rannsókn málsinsAð því er segir í umfjöllun Rúv. stóð árásin yfir í tvo tíma.

Sama húsnæði brann stutt síðar en þar var einnig áfangaheimili Betra lífs.

Fossblæddi úr slagæð

Maðurinn náði komast undan og hann hélt fáklæddur á flótta. Árásarmennirnir náðu honum þó aftur en þeir höfðu elt hann á bíl. Mennirnir ákváðu svo að skilja manninn eftir þar sem þeir sáu að mikið blæddi úr slagæð á handlegg og að hann væri í bráðri lífshættu. 

Maðurinn náði þá loksins að hringja í lögregluna, þar sem mennirnir skildu hann eftir með símann sinn. Hann lifði því árásina af.

Óljóst er hvernig maðurinn fékk skurðinn á slagæðina og maðurinn segist sjálfur ekki vera viss um hvort skurðurinn hafi komið til vegna árásarinnar eða vegna rúðubrots sem hann framdi á flóttanum til þess að vekja athygli á sér.

Lögregla hafði byggt á því að árásarmennirnir væru grunaðir um að hafa skorið manninn og gerst þannig sekir um manndrápstilraun. Landsréttur ákvað að hafna kröfu lögreglu um að gæsluvarðhald skyldi vera framlengt um fjórar vikur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert