Ástand áfangastaða sem eru innan friðlýstra svæða á landinu var heilt yfir svipað á seinasta ári og á árinu á undan þrátt fyrir að miklu fleiri ferðamenn færu um landið í fyrra. Svæðum sem eru metin í hættu á að tapa verndargildi sínu fækkaði um eitt milli ára og eru þessi svæði nú 14 talsins. Þá hefur innviðauppbygging á síðustu árum einnig skilað sér í aukinni náttúruvernd. Á það m.a. við um Rauðafoss og Keis innan Friðlands að Fjallabaki og Gjána og Háafoss innan Þjórsárdals.
Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Umhverfisstofnunar um ástandið í fyrra á áfangastöðum sem eru á friðlýstum svæðum. Fimm áfangastaðir náðu að vinna sig út af listanum yfir staði þar sem hugsanleg hætta er talin á að þeir tapi verndargildi sínu og þörf er á aðgerðum (merktir appelsínugulir áfangastaðir) en fjórir nýir staðir eru komnir inn á listann. Þeir eru: Geysir, Háubakkar, Hveravellir og Stútur.
Á hinn bóginn eru fjórir áfangastaðir nú metnir í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu (merktir rauðir staðir í áfangamatinu). Þeir eru Suðurnám innan Friðlands að Fjallabaki, Námuvegur innan Vatnajökulsþjóðgarðs og Vigdísarvellir og Vigdísarvallaleið innan Reykjanesfólkvangs. „Námuvegur stendur í stað en bæði Vigdísarvellir og Vigdísarvallaleið ásamt Suðurnámi innan Friðlands að Fjallabaki lækka í einkunn á milli ára. Skýringuna á lækkuninni er að finna í aukningu á gróðurskemmdum vegna aksturs utan vega innan Vigdísarvalla og í tilfelli Suðurnáms hefur töf á lagfæringu á göngustíg aukið á gróðurskemmdir á svæðinu,“ segir í umfjöllun Umhverfisstofnunar.
Alls var lagt mat á ástand 146 áfangastaða innan friðlýstra svæða. Meginniðurstaðan úr ástandsmatinu er sú að meðaltalseinkun þeirra hækkar lítillega milli ára og fá svæði lækkuðu í einkunn, sem er talið vera mjög góður árangur í ljósi mikils fjölda gesta í fyrra. Alls fengu 45% allra áfangastaða yfir átta af tíu í einkunn og fjölgaði þeim úr 64 áfangastöðum í 66 sem fá græna einkunn en til þess að komast á grænan lista þarf viðkomandi svæði að hafa náð a.m.k. átta í heildareinkunn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.