Nú fer hver að verða síðastur að leggja bílnum sínum við Keflavíkurflugvöll. Alls eru um 6.360 stæði við flugvöllinn og þykir líklegt að þau fyllist í dag eða á morgun.
Hjá Isavia eru tæplega 3 þúsund stæði en fyrirtækið tilkynnti um að stæðin væru að mestu að fyllast í gær. Eitthvað er laust á skammtímastæðunum, en þau stæði eru talsvert dýrari en langtímastæðin sem eru full.
Þá eru þrjú fyrirtæki í bílastæðaþjónustu við flugvöllinn, Car Park, Lagning og Base Parking. Líkt og kom fram í ViðskiptaMogganum í dag eru bílastæðin hjá Base Parking að verða full, en þeir eru með um 2.500 stæði til umráða.
Hjá Lagningu er allt að fyllast sömuleiðis en þeir eru með um 560 stæði. Það er þó eitthvað eftir hjá þeim en útlit fyrir að stæðin fyllist í dag eða á morgun.
Car Park eru með rúmlega 300 stæði til umráða og eru þau einnig að fyllast. Eitthvað var þó laust þegar mbl.is hafði samband fyrir hádegi.
Forsvarsmenn fyrirtækjanna í bílastæðaþjónustu sögðu allir að þegar tilkynningin barst frá Isavia í gær að allt væri að verða fullt hafi síminn byrjað að hringja og varla stoppað síðan. Sagði einn að hann þyrfti aldrei að leggja neitt í markaðssetningu fyrir páska því um leið og tilkynningin frá Isavia bærist fylltist allt hjá honum.
Þá sögðu þeir einnig að páskar væri helsti álagstími ársins. Stæðin fylltust aldrei nema þá.