Arnar Þór Sævarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. En hann hefur frá árinu 2018 starfað sem aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, fyrst fyrir hann sem félags- og barnamálaráðherra og frá árinu 2021 sem aðstoðarmaður mennta- og barnamálaráðherra.
Í tilkynningu frá Sambandinu kemur fram að Arnar hafi sem aðstoðarmaður ráðherra meðal annars komið að að margvíslegri stefnumótun, t.d. á ráðuneytunum, framhaldsskólum og verknámi á Íslandi, stefnumótun á sviði húsnæðismarkaðar, almannatrygginga, vinnumarkaða, málefnum barna og að gerð Lífskjarasamnings á vinnumarkaði 2019-2022. Arnar Þór er formaður stýrihóps stjórnvalda um byggingu þjóðarleikvanga.
Þar áður starfaði Arnar Þór sem bæjarstjóri Blönduósbæjar frá árunum 2007-2018, þar kom hann m.a. að byggingu sundlaugar, stofnun Textílseturs Íslands, stofnun Þekkingarsetursins á Blönduósi og undirbúningi og uppbyggingu gagnavers á Blönduósi. Hann starfaði sem lögfræðingur hjá Símanum á árunum 2002-2006 og sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu á árunum 1999-2001. Arnar Þór er með Cand.Jur frá Háskóla Íslands og réttindi til starfa sem héraðsdómslögmaður og með próf í verðbréfaviðskiptum. Arnar Þór er giftur Gerðu Betu Jóhannsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjú börn. Hann mun hefja störf hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í maí.
Um miðjan síðasta mánuð greindi blaðamaður Morgunblaðsins, Andrés Magnússon, frá því að samkvæmt heimildum væri auðséð að ráða ætti Arnar í stöðuna og að óánægja væri hjá Sjálfstæðismönnum innan Sambandsins varðandi aðferðina við ráðninguna, en fyrirsögn fréttarinnar var Hrossakaup í Sambandi sveitarfélaga.
Arnar tekur við af Karli Björnssyni, sem mun láta af störfum fyrir aldurs sakir eftir 15 ára starf hjá sambandinu.