Urður Egilsdóttir
Sakborningarnir fjórir í stóra kókaínmálinu hlutu þunga dóma rétt í þessu. Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi mennina fjóra í sex til tíu ára fangelsi.
Páll Jónsson hlaut tíu ár fangelsisdóm, Daði Björnsson hlaut sex ára og sex mánaða fangelsisdóm, Jóhannes Páll Durr hlaut sex ára fangelsisdóm og Birgir Halldórsson hlaut átta ára fangelsisdóm.
Jóhannes var eini sakborningurinn sem mætti í dómssal við dómsuppkvaðninguna.
Auk fangelsisdómana skulu sakborningarnir greiða meira en ellefu milljónir í lögfræðikostnað hver, og meira en eina milljón hver í málskostnað.
Málið er stærsta kókaínmál sem komið hefur upp hér á landi, en í málinu eru fjórir menn dæmdir fyrir að hafa, ásamt óþekktum aðila, ætlað að flytja inn 99,25 kíló af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi, þar sem fíkniefnin voru haldlögð af yfirvöldum. Efnin voru falin í sjö trjádrumbum.
Saksóknari fór fram á hámarksrefsingu í málinu, en Anna Barbara Andradóttir, saksóknari við embætti héraðssaksóknara, sagði í málflutningi sínum að það væri dómsins að meta refsingu, en hún vísaði til fyrri dóma, meðal annars 12 ára dóms í saltdreifaramálinu svokallaða.