„Það er álitið að það búi um þrjú til fimm þúsund manns í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og það yrði enginn bættari með það að slökkvilið eða embætti byggingafulltrúa á höfuðborgarsvæðinu færu í það að senda þetta fólk út á götu.“
Þetta segir Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg.
Nikulás segir að vandinn liggi í því að ekki sé hægt að gefa leyfi til búsetu í atvinuhúsnæði. Hann segir að á sínum tíma hafi því verið synjað að setja á fót gistiheimili í húsinu við Funahöfða 17. Hann segir grundvöll þeirrar synjunar hafa verið að landnotkun samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur heimilaði ekki íbúðarhúsnæði á svæðinu.
Aðspurður hvort mögulegt væri að breyta regluverkinu þannig að hægt væri að gefa leyfi til búsetu í atvinnuhúsnæði segir hann að ein af tillögum samráðshóps, sem fjallaði um óleyfisbúsetu og var settur saman í framhaldi af því sem gerðist á Bræðraborgarstíg á sínum tíma, hafi snúið að því.
„Ein af tillögum hans var að það yrði skoðað að gefa heimild í skipulagi til tímabundinnar notkunar atvinnuhúsnæðis sem íbúðarhúsnæðis. Þessar tillögur liggja enn hjá ráðuneytinu og eru væntanlega til umfjöllunar þar,“ segir Nikulás.