Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Austurbrú boðuðu til málþings á Þórshöfn á mánudag undir merkjum Eflingar byggðar á norðausturhorninu – orka – náttúra – ferðaþjónusta. Alls mættu ríflega 60 manns á þingið auk þess sem margir fylgdust með í streymi og var gerður góður rómur að uppátækinu.
Málþingið var þrískipt eftir málefnum: Norðausturhornið og hringrás ferðamanna um Austur- og Norðurland; Orkumál og atvinnuþróun; og Hagræn tengsl náttúruverndar og byggðaþróunar. Undir hverju málefni voru flutt 4-5 stutt erindi en í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður og spurningar úr sal bornar upp.
Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður var einn fundarmanna og greindi frá því á Facebook-síðu sinni að tíðinda virðist vera að vænta af orkumálum á svæðinu. „Það áhugaverðasta í samtalinu í dag kom fram í ræðum og svörum fulltrúa Landsnets og RARIK. Þar kom meðal annars fram að lagasetningin á sínum tíma, þegar stofnað var til Landsnets, kemur ekki alls staðar til móts við þarfir atvinnulífs og almennings. Þar kom einnig fram að það er nauðsynlegt að fara í skoðun á því að tengja Þórshöfn við flutningskerfi Landsnets og styrkja flutningsgetuna umtalsvert til Þórshafnar. Bæta samkeppnishæfni og tryggja að sveitarfélagið Langanesbyggð geti tekið þátt í orkuskiptunum og byggt upp framtíðaratvinnuvegi. Mikilvægt að Orkustofnun taki vel í hugmyndir Landsnets um hvernig eigi að standa að málum og horfa til orkuskiptanna og mögulegrar orkuvinnslu og framtíðaratvinnuvega í grænum iðnaði,“ segir þingmaðurinn.
Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Langanesbyggðar, segir að ánægjulegt hafi verið að boðað sé að mál þróist til betri vegar í orkumálum landshlutans.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.