Gætum haft 38 þúsund manns til hervarna

Þumalputtareglan er sú að kveða má 10% íbúa lands til hervarna án þess að setja efnahagslíf viðkomandi ríkis á hliðina. Þetta bendir Arnór Sigurjónsson, fyrrum hermálafulltrúi Íslands hjá NATO á í viðtal í Dagmálum. Það myndi þýða að kveða mætti allt að 38 þúsund manns til varna á Íslandi.

Hann segir að ekki þurfi að grípa til svo drastískra aðgerða hér á landi en að með broti af þessum fjölda mætti koma skikki á varnarmál þjóðarinnar. Í dag hafi Íslendingar ekki burði til þess að verja mikilvæga hernaðarlega innviði sína, jafnvel ekki til þess að tryggja möguleika bandalagsþjóða NATO til þess að koma okkur til bjargar, ef á okkur er ráðist.

Bendir Arnór á að í nýju ógnarmati þjóðaröryggisráðs sé ekki tekið á kjarna þeirra öryggis- og varnarmála sem allar þjóðir verða að taka tillit til þegar hugað er að vörnum þeirra.

Hvað veldur því, er það vegna þess að við getum bara vísað í aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin?

„Já ég held það. Þetta er mjög þægilegt. Það er mjög þægilegt fyrir stjórnmálamennina að segja bara aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin er nóg. Það steðjar engin ógn að Íslandi. Vandamálið er ekki fyrir hendi. Við höldum bara áfram eins og við höfum gert hingað til á sjálfstýringur. En staðreyndin er sú að vandamálið er fyrir hendi. Við höfum ekki vanist því, hvorki á Alþingi né almennt að ræða öryggis- og varnarmál af einhverri alvöru. Menn fara oft fljótt í skotgrafir, tilfinningauppnám, trúarlegs eðlis jafnvel en málið er að allar þjóðir þurfa að fást við, takast á við og leggja eitthvað af mörkum sjálf. Með öðrum orðum. Við Íslendingar getum ekki ætlast til þess að allir aðrir sjái um öryggi og varnir landsins og að við græðum á því.“

Kjarnorkuvopn inni í myndinni

Arnór hefur áhyggjur af mögulegri stigmögnun átaka milli Rússlands og Úkraínu og að ekki sé útilokað að Rússar muni beita kjarnorkuvopnum í baráttunni.

„Þau eru til og meðan þau eru til er sú hætta fyrir hendi. Ég minni á að yfirmaður rússneska hersins, Gerasimov, er með kenningu um að stigmagna til að minnka stigmögnun, escalate to deescalate, sem þýðir, við notum taktísk kjarnorkuvopn sem aðvörun og drögum það svo til baka ef aðildarríki NATO svara ekki í sömu mynt. Þetta er raunveruleiki dagsins í dag. Þetta er því miður staðan og við getum ekki horft fram hjá því að þessi vopn verði ekki notuð.“

Viðtalið við Arnór má heyra og sjá hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert