Getum ekki tryggt hernaðarlega mikilvæg mannvirki

„Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera ef við verðum fyrir óvæntri eða fyrirvaralausri árás, getur verið hermdar- eða hryðjuverk eða eitthvað annað verra, sem gerir það að verkum að við veðrum að tryggja hernaðarlega mikilvæg mannvirki þannig að við getum fengið liðsauka og hjálp?“

Þessarar spurningar spyr Arnór Sigurjónsson, fyrrum hermálafulltrúi Íslands hjá NATO og skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu í viðtali í Dagmálum. Hann skefur ekki utan af hlutunum þegar hann lýsir stöðunni eins og hún blasir við honum.

„Staða okkar í dag er sú að við höfum enga getu til þess í einhvern ákveðinn tíma.“

Þörf á 1.000 manna herliði

Arnór gaf nýverið út bókina Íslenskur her - Breyttur heimur, nýr veruleiki, þar sem hann varpar fram og útskýrir þá skoðun sína að koma þurfi upp 1.000 manna léttvopnuðum her hér á landi auk 500 manna varaliðs, sem hefði það hlutverk að tryggja hernaðarlega mikilvæg mannvirki á borð við flugvelli og hafnir, sem væru hlið fyrir bandamenn Íslands, Bandaríkjamenn eða aðrar NATO-þjóðir, sem hingað kæmu til aðstoðar ef á landið væri ráðist.

„Þetta snýst um að tryggja aðgengi þeirra sem eiga að koma okkur til aðstoðar. Þetta snýst um að byggja upp uppsprettu sérfræðikunnáttu og -þekkingar sem við höfum ekki í dag og þetta snýst um að Íslendingar taki eigin varnir og öryggi föstum tökum og leggjum eitthvað í púkkið, en ætlumst ekki til þess að allir aðrir gerir þetta fyrir okkur endurgjaldslaust,“ segir Arnór.

Spurður út í það hvað Bandaríkjamenn gefi sér langan tíma til þess að bregðast við og koma til aðstoðar, ef árás yrði gerð á Ísland, segist Arnór ekki geta sagt til um það. Það ráðist m.a. annars af því hvort fyrirvari verði á árásinni og hvort tími gefist til undirbúnings. Það ráðist einnig af því hversu skilvirkt ákvarðanatökuferli sé innan íslenska stjórnkerfisins.

Viðtalið við Arnór má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert