Kristján gefur ekki kost á sér áfram

Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Kristján Þórður Snæbjarnarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, ætlar ekki að gefa kost á sér áfram í embættið á framhaldsþingi ASÍ sem fer fram í lok þessa mánaðar. Kristján gefur aftur á móti kost á sér í embætti 1. varaforseta. 

Þetta kemur fram í færslu sem Kristján hefur birt á Facebook. 

„Á síðasta þingi gaf ég kost á mér til að vera 1. varaforseti enda hef ég metnað fyrir því að leggja mitt af mörkum til að ASÍ gangi sem best til hagsbóta fyrir launafólk og er það framboð enn í gildi. Ég hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar og mun að svo stöddu ekki gefa kost á mér í embætti forseta ASÍ en ég gef kost á mér til 1. varaforseta á framhaldsþingi ASÍ í lok mánaðar. Ég hef lagt mikið á mig við að reyna að bæta stöðu mála innan ASÍ þrátt fyrir þessar aðstæður og er sáttur við mitt framlag þó svo maður hefði að sjálfsögðu viljað hafa meiri tíma til þess að sinna þessu,“ skrifar hann. 

Kristján segir enn fremur, að hann hann hafi sett meiri kraft í málefni Rafiðnaðarsambands Íslands frá því að þingi ASÍ var frestað í október í fyrra.  „Ég mun snúa mér að málefnum RSÍ af fullum þunga fram að og í kjölfar framhaldsþings ASÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert