Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins var stofnuð á mánudag. Hlutverk markaðsstofunnar er meðal annars að markaðssetja höfuðborgarsvæðið sem áfangastað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).
SSH og Ferðamálasamstök höfuðborgarsvæðisins eru stofnaðilar markaðsstofunnar en undirbúningur hefur staðið í um tvö ár.
„Nú förum við í það að þróa, móta og efla samstarf og samlegð um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, atvinnulífs og stjórnvalda, þannig að allar raddir og áherslur komi fram, verkefninu til heilla,“ lýsir Þórdís Lóa, formaður stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, yfir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni er haft eftir Þóri Garðarssyni að stofnun markaðsstofunnar sé eitt stærsta framfaraskrefið í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. „Ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir því að stofnuð yrði markaðsstofa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórir.