Umboðsmanni Alþingis hefur borist svar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í kjölfar þess að hann óskaði frekari upplýsinga um birtingu vinnuskjala og þagnarskyldu.
Í svari ráðuneytisins segir m.a. að orðalag tilkynningar á vef ráðuneytisins 9. mars sl. hafi ekki verið nægilega nákvæmt og þannig ekki í samræmi við þá lögfræðilegu túlkun sem lýst hefði verið í fyrra svari ráðuneytisins, að því er segir í tilkynningu á vef umboðsmanns.
„Í tilkynningu ráðuneytisins var leitast við að upplýsa á auðskiljanlegan máta að það væru lagalegar skyldur sem réðu för í tengslum við mögulega afhendingu eða birtingu viðkomandi vinnuskjals, en ekki afstaða ráðherra eða ráðuneytisins til efnis þess. Samskipti við umboðsmann Alþingis vegna málsins hafa gefið ráðuneytinu tilefni til að huga að því hvort áréttingin hafi verið sett fram á of einfaldan hátt. Unnt er að taka undir þá afstöðu umboðsmanns að orðalag hennar sé ekki nægilega nákvæmt og þannig ekki í fullu samræmi við þá lögfræðilegu túlkun sem lýst er í fyrra svari ráðuneytisins,“ segir m.a. í svarbréfi ráðuneytisins.
„Í samræmi við þá almennu stefnu ráðuneytisins að bregðast við ábendingum um vöntun á skýrleika eða nákvæmni og að leiðrétta slíkt eftir því sem frekast er unnt telur ráðuneytið rétt að uppfæra tilkynninguna með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem reifuð hafa verið í fyrri samskiptum við umboðsmann,“ segir enn fremur í svarbréfi ráðuneytisins.
Framhald málsins er til skoðunar hjá umboðsmanni.