Óskar sækist ekki eftir endurráðningu

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Sigurður Bogi

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, tilkynnti starfsfólki sínu í dag að hann ætli ekki að sækjast eftir endurráðningu. Þó ætlar hann sér að halda áfram að starfa sem læknir.

„Þetta var í sjálfu sér engin sérstök ákvörðun,“ segir Óskar í samtali við mbl.is. „Ég hafði alltaf reiknað með að vera tímabilið sem skipunartíminn er.“

Skipunartími forstjóra heilsugæslustöðva er yfirleitt fimm ár, að því er Óskar segir, en hann hefur verið við forstjóri í rúm fjögur ár, frá 1. janúar 2019.

Hann segist vera læknir í grunninn og vill skella sér í það aftur. „Ég reikna með að fara í Hlíðarnar, það er þar sem ég hef almennt verið að lækna,“ segir hann og bætir við að áform séu um að ný heilsugæslustöð opni í Skógarhlíð, við hliðina á slökkvistöðinni.

Örugglega slegist um starfið

„Þetta er náttúrulega stórkostlegt starf. Það er frábært fólk sem ég hef unnið með,“ segir hann aðspurður um hvernig það hefur verið að sitja í forstjórastól.

„Maður hefur áhrif, kynnist vel starfseminni og fær öll möguleg sjónarmið sem hægt er að nýta til að þróa starfsemina til góðs. Þetta er sérstaklega ánægjulegt starf. Það verður örugglega slegist um þetta,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert