Páll Guðmundsson myndhöggvari í Húsafelli hefur beðið Sæmund Ásgeirsson afsökunar vegna ummæla Páls á Facebook um Húsafellsmálið.
Sumarið 2021 stóðu nágrannarnir Páll og Sæmundur í deilum um legsteinahús Páls.
Páll hafði reist húsið á grundvelli deiliskipulags sem var búið að samþykkja af byggingafulltrúa Borgarbyggðar en auglýst undir röngu nafni og röngu landnúmeri. Sæmundur var ósáttur við þetta deiliskipulag, sem gerði ráð fyrir nokkrum byggingum við sameiginlegt bílastæði inni á hans landi. Sæmundur kærði byggingarleyfið en Páll byggði húsið á grundvelli leyfisins, þrátt fyrir fyrirvara um að það yrði á hans ábyrgð í ljósi þess að leyfið væri í kæruferli, að því er kom fram í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands. Páli var í kjölfarið gert að fjarlægja húsið á eigin kostnað.
Málalok urðu þó þau að undirritaður var samningur í ágúst 2021 þess efnis að legsteinahúsið fengi að standa og Sæmundur fengi að byggja fleiri hús á sínu landi. Þá greiddi Borgarbyggð báðum aðilum bætur vegna þess tjóns sem þeir hlutu af málinu.
Páll skrifaði Facebook-færslu degi áður en samningurinn var undirritaður þar sem hann sagði að Sæmundur hefði tekið tiltekna legsteina án leyfis.
„Nú hef ég fengið upplýsingar sem sýna það að tilvitnuð skrif mín voru byggð á röngum forsendum,“ segir í færslu Páls sem var birt á mánudag.
Því biður hann Sæmund afsökunar og þá hefur hann fjarlægt færsluna af samfélagsmiðlinum.
„Það er ekki og hefur aldrei verið vilji minn að standa í deilum við Sæmund Ásgeirsson og því leiðréttist þetta hér með.“