Ríkissaksóknari vill mansalsmál fyrir Hæstarétt

Ríkissaksóknari vill fá mansalsmálið fyrir Hæstarétt.
Ríkissaksóknari vill fá mansalsmálið fyrir Hæstarétt. mbl.is/Oddur

Embætti ríkissaksóknara hefur ákveðið að óska eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar í máli þar sem kona var sýknuð í Landsrétti af ákæru um mansal og brot í nánu sambandi gagnvart fjórum stjúpbörnum sínum. Hún hafði áður hlotið fjögurra ára dóm í Héraðsdómi Reykjaness vegna málsins. Eins og mbl.is hefur greint frá skilaði einn af þremur dómurum í Landsrétti sératkvæði og vildi staðfesta sakfellingardóminn úr héraði.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun embættisins við mbl.is, en enn er beðið ákvörðunar Hæstaréttar um hvort fallist verði á áfrýjunarbeiðnina.

Í grunninn snýst málið um það að konan, sem flutt hafði til Íslands um síðustu aldarmót, kynntist erlendum manni á samfélagsmiðlum og tóku þau svo saman. Flutti hann ásamt börnum sínum í hús sem konan átti í ótilgreindu landi en svo fluttu þau áfram til Íslands og greiddi konan meðal annars fyrir þá flutninga. Börnin hófu svo störf hjá fyrirtæki sem konan stýrði og var í eigu fyrrverandi eiginmanns hennar. Snýst málið um þá vinnu, en í ákæru máls­ins voru eldri börn­in sögð hafa verið lát­in vinna í allt að þrett­án klukku­stund­ir á dag, sex til sjö daga vik­unn­ar. Þá hafi kon­an haldið eft­ir laun­um barn­anna og nýtt þau í eig­in þágu.

Í dómi Landsréttar er reyndar komið inn á að mögulega hafi vinnutímar barnanna verið ofskráðir, en þó líklega umtalsverðir.

Nánar má lesa um málatilburði og niðurstöðu Landsréttar í meðfylgjandi frétt:

Túlkun á mansalsákvæðinu og hvað felst í flutningi

Meirihlutaniðurstaðan og sératkvæðið í Landsrétti eru ekki sammála um hvernig túlka skuli mansalsákvæði laga og hvað felist í þeim þremur meginþáttum sem þar séu tilteknir, en það eru; „a) verknaður, þ.e. að út­vega, flytja, af­henda, hýsa eða taka við ein­stak­ling­um, b) aðferð, þ.e. með því hóta vald­beit­ingu, beita valdi eða ann­ars kon­ar nauðung, brott­námi, svik­um, blekk­ing­um o.fl., og c) til­gang­ur, þ.e. að mis­notk­un­in sé til hvers kon­ar hag­nýt­ing­ar (e. exploitati­on). Til að um man­sal geti verið að ræða verða all­ir þess­ir þrír þætt­ir að vera til staðar, en þegar um er að ræða börn skipt­ir ekki  máli hvaða aðferð er beitt við man­sali.“

Taldi meirihluti Landsréttar að ósannað væri í málinu að konan hefði flutt börnin til landsins í þeim tilgangi að misnota þau til nauðungarvinnu, heldur hafi verið sameiginleg ákvörðun hennar og föður barnanna að flytja til Íslands þar sem þeirra biði betra líf hér. Þar með hafi ekki verið ásetningur um brot á bak við flutningana og uppfylli þetta því ekki skilyrði um tilgang.

Í sératkvæðinu er hins vegar vísað í dómafordæma við Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu í frönsku máli og í dóm Hæsta­rétt­ar Nor­egs varðandi nauðung­ar­vinnu­hug­takið. Er sá dómari sammála um að ekki verði ráðið að konan hafi verið búin að ákveða að börnin myndu vinna hjá því fyrirtæki sem þau fóru að vinna hjá, en að horfa verði til þess að börnin og faðir þeirra væru í framandi landi, ekki kunnað íslensku og verið konunni um felst háð. Þá hafi laun þeirra ða stærstum hluta verið send úr landi án þess að þau nytu þeirra. Þótt börnin hafi sjálfviljug gengið til vinnu í upphafi hafi þau verið undir þrýstingi frá konunni að halda áfram og í því hafi falist nauðgunarvinna sem eigi að sakfella fyrir.

Þá er einnig spurning hvernig Hæstiréttur, að því gefnu að málið fái áfrýjunarleyfi, muni meta tilgang og flutning. Þ.e. hvort flutningur þurfi að vera flutningur barnanna til Íslands í upphafi, eða hvort horft verði til þess að flutningur eigi sér stað þegar börnin mættu til vinnu.

Í lögum um meðferð sakamála er greint um að áfrýjunarleyfi skuli aðeins veitt ef öðru eftirfarandi skilyrða er fullnægt:

  • áfrýjun lýtur að atriði sem hefur verulega almenna þýðingu, eða
  • áfrýjun lýtur að atriði sem af öðrum ástæðum er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um.

Þá getur Hæstiréttur veitt leyfi til áfrýjunar ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert