Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni. Þá er maðurinn dæmdur til að greiða 500.000 kr. í miskabætur og 2,2 milljónir í sakarkostnað.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum í nóvember. Þar var honum gefið að sök að hafa aðfaranótt 14. ágúst í fyrra strokið yfir rass konu og strokið yfir og káfað á kynfærum hennar, allt utanklæða, þar sem hún lá uppi í rúmi.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 20. mars en var birtur í gær, að maðurinn hafi neitað sök og krafist sýknu.
Hann skýrði fyrir dómnum að hann hefði hafið áfengisneyslu er hann mætti í gleðskapinn þar sem atvikið gerðist um kl. 22. Þá hafi hann neytt sterkra drykkja og af þeim sökum orðið „pínu ölvaður“. Við skýrslutöku hjá lögreglu skýrði maðurinn aftur á móti frá heldur meiri drykkju og jafnframt að hann hefði af þeim sökum verið „fullur“ þegar hann kom á dvalarstað sinn þá um nóttina. Í því samhengi minntist maðurinn einnig á minnisglöp varðandi eigin gjörðir.
Fyrir dómi hefur maðurinn staðhæft að hann hafi ranglega borið á sig sakir í yfirheyrslunni hjá lögreglu, og þá um að hann hafi strokið yfir rass brotaþola. Skýrði hann mál sitt þannig að hann hefði í raun ekki munað vel eftir eigin gjörðum umrædda nótt, en hefði viljað sýna tilfinningum konunnar skilning og því tekið ákvörðun um að biðjast afsökunar.
Héraðsdómur segir að framburður konunnar um atvik máls sé að áliti dómsins skýr og í öllum aðalatriðum í samræmi við framburð hennar hjá lögreglu. Þá segir að framburður hennar um að maðurinn hafi viðhaft þær snertingar sem hún tíundaði sé trúverðugur að mati dómsins og engin sennilegri skýring sé komin fram sem skýrt geti viðbrögð hennar.
„Að mati dómsins er frásögn brotaþola að þessu leyti einnig í fullu samræmi við aðstæður, en einnig trúverðugan framburð vitnanna E og D fyrir dómi og þá um viðveru brotaþola á baðherbergi og efni þeirra skilaboða sem hún sendi frá sér. Þá er frásögn brotaþola um bágborna andlega líðan einnig í samræmi við frásögn þessara vitna, en hefur að auki nokkra stoð í staðfestum vottorðum, og í framburði vitnanna F og C,“ segir dómurinn sem metur að leggja beri framburð hennar til grundvallar niðurstöðunni. Því sé ekki varhugavert að telja sannað, þrátt fyrir neitun mannsins, að hann hafi brotið gegn henni með fyrrgreindum hætti.