Félagsstofnun Stúdenta (FS) hefur aldrei rift leigusamningi við nemanda á Stúdentagörðunum vegna einstaka næturgests. „Við höfum ekki verið að setja okkur upp á móti því að fólk sé einstaka sinnum með næturgesti,“ segir Heiður Anna Helgadóttir, upplýsingafulltrúi FS.
Skjáskot af tölvupósti sem sendur var á nemendur í ágúst árið 2021 var nýlega birtur á Twitter. Í póstinum kemur fram að borið hafi á því að íbúar á Stúdentagörðunum hafi verið með næturgesti án samþykkist annarra íbúa.
„Af því tilefni þurfum við að minna á 8. gr. leigusamnings þar sem fram kemur "Hið leigða er einungis ætlað til íbúðar fyrir þann/þá leigutaka sem tilgreindur/tilgreindir er/eru í samningi [...]"," kemur fram í póstinum.
Þá kemur fram að ef kvörtun berst vegna brots á ákvæði þessu geti það leitt til tafarlausrar riftunar.
Umræðan spratt upp í kjölfar þess að Twitter-notandi vakti athygli á því að leigusalar væru nú farnir að „krefjast skírlífis“ af leigutökum.
Í skjáskoti sem fylgdi tístinu mátti sjá auglýsingu af bland.is af herbergi til leigu þar sem tekið er fram að herbergið væri „fyrir einstakling án allra næturgesta“.
Heiður Anna segir að einungis einn póstur um þetta mál hafi verið sendur á nemendur.
Þetta ákvæði eigi þó fyrst og fremst við um íbúðir sem eru með sameiginlegri eldhúsaðstöðu og stofu. Segir hún póstinn sem skjáskotið er af hafa verið sendur í kjölfar kvartana þar sem næturgestir voru ítrekað í heimsókn.
„Við höfum aldrei verið að taka strangt á þessu nema þegar að við höfum fengið kvartanir frá öðrum íbúum. Það er þá yfirleitt ekki gert nema að það búi einhver í herberginu aukalega ekki ef að einhver er með næturgest af og til.“