Stinga upp á gervigrasvelli í stað íþróttahallar

Hamarshöllin féll í ársbyrjun 2022 í miklu óveðri.
Hamarshöllin féll í ársbyrjun 2022 í miklu óveðri. Ljósmynd/Verkís

Ný Hamarshöll er ekki enn í sjónmáli en bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti á fundi sínum á mánudaginn að hafna öllum gildum tilboðum er bárust í verkið.

Alls höfðu fimm tilboð borist og voru þau öll umfram kostnaðaráætlun sem er 1.096.700.000 krónur. Það lægsta nam ríflega 1,2 milljörðum og var það frá Stálgrindarhúsum ehf. Hæsta tilboðið kom frá E. Sigurðssyni ehf. og nam það ríflega 2,4 milljörðum. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarins en Sunnlenska greinir fyrst frá. 

Bæjarstjórn samþykkti þó að efna til samkeppnisútboðs eða samkeppnisviðræðna við bjóðendur sem uppfylltu hæfiskröfu útboðsskilmála, líkt og heimild er fyrir í lögum um opinber innkaup.

Var bæjarstjóra falið að hefja þær viðræður strax. Sú tillaga var samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá og vísuðu til þess að heildarkostnaður byggingarinnar og framkvæmdartími væru áhyggjuefni. 

Hægt að fara aðrar leiðir

Tilboðin eru það langt umfram getu bæjarfélagsins að lítil sem engin von er til að viðræður við tilboðsgjafana leiði til farsællar lausnar og muni tefja málið til skaða fyrir bæjarbúa,“ segir í fundargerðinni.

Benda bæjarfulltrúarnir á að hægt væri að ráðast í aðrar framkvæmdir sem væru fjárhagslega raunhæfar fyrir sveitarfélagið, tækju styttri tíma og myndu mæta þörfum íþróttafélagsins og annarra notenda, til að mynda gervigrasvöll í fullri stærð, viðbyggingu við núverandi íþróttahús eða loftborið hús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert