Svona frelsissviptingar ekki algengar

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir rannsókn málsins á lokametrunum.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir rannsókn málsins á lokametrunum. Samsett mynd

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir rannsókn máls tveggja manna, sem grunaðir eru um að hafa frelsissvipt mann, pyntað hann og tekið upp myndskeið, vera á lokametrunum. Hún fari svo yfir til ákærusviðs lögreglunnar og eftir atvikum til héraðssaksóknara. 

Í gær sneri Landsréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um framlengt gæsluvarðhald yfir mönnunum. Rúv greindi fyrst frá.

„Það er á grundvelli þess að ekki er ljóst hvernig alvarlegustu áverkarnir komu til. Það er bara niðurstaða Landsréttar, það eru ekki þannig lagað séð nein vonbrigði en við töldum að það væru skilyrði þarna til þess ná fram almannagæslu þar til við lykjum rannsókninni,“ segir Grímur í samtali við mbl.is. Var farið fram á gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.

At­vikið sem um ræðir átti sér stað fyr­ir tveim­ur mánuðum í húsi við Vatnag­arða. Mynd­skeið voru tek­in af nær öll­um pynt­ing­un­um og lög­regla hef­ur nú rannsakað málið í um tvo mánuði. Sama hús­næði brann stuttu síðar en þar var einnig áfanga­heim­ili Betra lífs.

Grímur segir ekkert benda til þess að mennirnir tengist húsnæðinu á nokkurn hátt. 

„Ég veit ekki annað en að þeir hafi haft aðgang að einhverju herbergi þarna. Ég held það sé ekki tenging við starfsemina nei,“ segir Grímur.

„Að mörgu leyti mjög sérstakt“

Maðurinn í myndskeiðinu var bundinn á bæði höndum og fótum, látinn afklæðast og var ítrekað hýddur með belti. Því til viðbót­ar var hann stung­inn með stál­röri og lam­inn oftsinnis. Auk þess var tá á skó sparkað eða troðið í endaþarm manns­ins.

Náði hann að kom­ast und­an og hélt fá­klædd­ur á flótta. Árás­ar­menn­irn­ir náðu hon­um aft­ur en þeir höfðu elt hann á bíl. Menn­irn­ir ákváðu svo að skilja hann eft­ir þar sem þeir sáu að mikið blæddi úr slagæð á hand­legg og að hann væri í bráðri lífs­hættu.

Maður­inn náði þá að hringja í lög­regl­u, þar sem menn­irn­ir skildu hann eft­ir með sím­ann sinn. Hann lifði því árás­ina af.

Þetta er með því hrottalegasta sem sést hér á Íslandi. Grunar ykkur tengsl við skipulagða glæpastarfsemi eða eitthvað því um líkt?

„Nei við erum ekki með það í huga.“

Það koma ekki mörg svona mál upp á Íslandi?

„Nei, svona frelsissviptingar eru ekki mjög algengar þó þær komi upp annað slagið. Svo svona alvarlegar árásir í frelsissviptingu, það er ekki mjög algengt. Þetta er að mörgu leyti mjög sérstakt.“

En liggur grunur um að þetta tengist einhverju uppgjöri í undirheimunum?

„Nei, það ekkert sem bendir til þess sérstaklega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert