Aðeins tvö mál voru tekin fyrir á borgarstjórnarfundi í gær og stóð fundurinn aðeins yfir í rúma klukkustund. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, mótmælti harðlega þeim vinnubrögðum meirihlutans að fresta tveimur dagskrárliðum á dagskrá fundarins.
Athygli vakti að Kjartan lagði bókunina fram einn síns liðs en ekki ásamt borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, sem sátu hjá við atkvæðagreiðslu um frestun dagskrárliðana.
Annars vegar var um að ræða umræðu um vanrækslu á viðhaldi skólahúsnæðis í Reykjavík og tengd vandamál. Hins vegar var um að ræða tillögu um meðferð fyrirspurna borgarfulltrúa í borgarkerfinu. Bæði málin voru borin fram af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks. Kjartan sagði í bókun sinni að með því að ryðja dagskrána með þessum hætti gangi meirihlutinn gegn ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. greinar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar en þær greinar kveða á um rétt borgarfulltrúa, að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni, sem varðar málefni sveitarfélagsins. Kjartan segir enn fremur slíkan rétt að sjálfsögðu fela í sér að óþægileg málefni séu rædd án undanbragða í borgarstjórn en ekki skotið á frest eftir hentugleikum meirihlutans.
Meirihlutinn lagði þá fram bókun þar sem hann mótmælti harðlega bókun Kjartans og því að hann leggi ítrekað fram bókanir um meint harðræði og gerræðisleg vinnubrögð þegar dagskrárliðum er frestað á fundum borgarstjórnar. Segir meirihlutinn í bókun sinni að frestun dagskrárliða sé í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, gildandi samþykkta og samkomulag allrar borgarstjórnar, nema Sjálfstæðisflokksins. Segir að samkomulagið miði að því að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað og að það sé miður að Kjartan Magnússon reyni að standa í vegi fyrir breytingum sem færa borgarstjórn í átt að nútímanum og séu í góðu samræmi við ítrekaðar óskir borgarfulltrúa úr öllum flokkum. Meirihluti borgarstjórnar óskar þess í bókuninni að Kjartan leggi borgarstjórn lið í þeirri viðleitni að að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað þar sem sameinast verði um opna og vandaða umræðu, í stað þess að strá fræjum samsæriskenninga um gerræði og valdníðslu.
Kjartan svaraði bókun meirihlutans í svarbókun þar sem hann vísaði ásökunum meirihlutans á bug um að hann standi gegn eðlilegum breytingum á vinnulagi borgarstjórnar. Hann sagði borgarfulltrúa hafa skýlausan rétt á að setja mál á dagskrá borgarstjórnarfunda og að meira en aldarlöng hefði væri fyrir því að þeim sé ráðið til lykta á sama fundi. Hann ítrekar að í vetur hafi meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar hins vegar ítrekað beitt bolabrögðum til að banna og/eða fresta umræðu um óþægileg mál og minnist á mál um milljarða fjárfestingar Ljósleiðarans máli sínu til stuðnings. Þá hafnaði hann því að ekki sé fjölskylduvænt að ræða fyrirliggjandi mál á borgarstjórnarfundi í gær enda væri hann haldinn á virkum degi þegar venjulegt fólk þurfi að mæta til vinnu. Hann sagði borgarfulltrúa enga forréttindastétt, sem væri yfir það hafna að mæta til vinnu á virkum degi.