„Þetta er auðvitað þungur dómur,“ sagði Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Páls Jónssonar, við blaðamenn að lokinni dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Páll hlaut þyngsta dóm sakborninganna fjögurra, eða tíu ára fangelsisdóm. Þá skal hann greiða rúmlega ellefu milljónir í lögfræðikostnað og meira en eina milljón í málskostnað.
Unnsteinn sagðist hafa vonast eftir vægari dómi. Þá sagði hann að nú yrði rýnt í dóminn, sem er meira en 100 blaðsíður, og í framhaldinu verður ákveðið hvort honum verði áfrýjað.
Verjendur hinna sakborninganna voru ekki viðstaddir dómsuppkvaðninguna, einungis fulltrúar í þeirra stað sem vildu ekki tjá sig við fjölmiðla.
Málið er stærsta kókaínmál sem komið hefur upp hér á landi, en í málinu eru fjórir menn ákærðir fyrir að hafa, ásamt óþekktum aðila, ætlað að flytja inn 99,25 kíló af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi, þar sem fíkniefnin voru haldlögð af yfirvöldum. Efnin voru falin í sjö trjádrumbum.
Páll sá um að flytja inn timbrið frá Brasilíu sem fíkniefnin voru falin í. Hann sagði er aðalmeðferð hófst í málinu í janúar að andlegt þrot hafi leitt til þess að hann samþykkti að flytja inn fíkniefnin.
Vitnisburður Páls stangaðist á við vitnisburð Jóhannesar og Birgis og sökuðu þeir báðir Pál um lygar.
Sonja Berndsen, aðstoðarsaksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, var viðstödd dómsuppkvaðninguna í fjarveru Önnu Barböru Andradóttur saksóknara sem fór með málið í héraðsdómi.
Sonja sagði við blaðamenn að það væri ríkissaksóknara að ákveða hvort dóminum yrði áfrýjað til Landsréttar.
Hún vildi ekki tjá sig spurð hvort að um þungan dóm væri að ræða. Embætti héraðssaksóknara mun nú rýna í dóminn.