Hafist var handa við að aflífa sauðfé frá bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu í vikunni en þar var riða staðfest á mánudag. „Við höfum staðið í miklum undirbúningi og ég var að fá fréttir af því að ferlið væri farið af stað,“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun.
„Þetta verður gert í áföngum. Féð er flutt frá bænum og aflífað í sláturhúsi en fer ekki inn í sláturhúsið sjálft eða þar sem matvæli eru nálægt. Sauðfjárslátrun er hvort sem er ekki í gangi á þessum árstíma. Undirbúningsvinnan gekk mjög vel en öll keðjan þarf að ganga upp. Safna þarf saman mannskap, fá bíla í flutning á fé, finna gáma til flutnings, opna sláturhús og græja upp,“ segir Sigurborg en féð er flutt í gámum og fer til brennslu hjá Kölku. „Þetta hefur gengið vel og aðgerðir eru að hefjast.“
Umfangið er mjög mikið þar sem sýni er tekið úr hverri einustu kind og í þessu tilfelli þarf því að taka tæplega 700 sýni. „Sýni er tekið úr heila og ná þarf sýni úr mænukylfu. Vegna mikils fjölda dýra þarf að áfangaskipta þessari vinnu eins og gefur að skilja.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.