ÍAV fá matsmenn í Kirkjusandsmáli

Deilt er um aðkomu matsmanna vegna riftunar samnings um uppbyggingu …
Deilt er um aðkomu matsmanna vegna riftunar samnings um uppbyggingu á Kirkjusandsreit. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur staðfesti á föstudaginn, 31. mars, úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. febrúar þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að fallast bæri á kröfur Íslenskra aðalverktaka um dómkvaðningu tveggja matsmanna í máli þeirra gegn 105 Miðborg slhf., fagfjárfestafélagi í eigu Íslandssjóða sem Íslandsbanki er eigandi að.

Málið snýst um stýriverktakasamning ÍAV og 105 Miðborgar um byggingu þriggja húsa, tveggja fjölbýlishúsa og eins skrifstofuhúsnæðis, á svokölluðum Kirkjusandsreit. Sagði 105 Miðborg samningnum upp í febrúar 2021 vegna meintra vanefnda ÍAV sem mótmælti og telur riftunarástæður Miðborgar ekki standast lög. Stefndu ÍAV Miðborg fyrir riftunina og krefjast 3,8 milljarða króna úr hendi fagfjárfestafélagsins sem krefst sýknu en til vara lækkunar á kröfum.

Með matsbeiðni á fyrri stigum málsins fór aðalstefnandi þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir óvilhallir og sérfróðir matsmenn til að skoða og meta framkvæmd verksins „Kirkjusandur lóð B, C og D“, tafir á framkvæmdinni og ástæður þeirra, kostnað ÍAV af framkvæmdinni, verðmæti framkvæmdarinnar, skaðabætur vegna riftunar verksamnings, sanngjarnt og eðlilegt endurgjald til matsbeiðanda fyrir vinnu við verkið og tengd atriði.

Lögfræðileg málefni verði ekki borin undir matsmenn

Telja ÍAV verkframkvæmdina hafa vikið verulega frá þeim forsendum sem legið hafi til grundvallar þegar samningurinn var gerður og frá efni samningsins. Hafi þrjú atriði vegið þar þyngst með þeim afleiðingum að kostnaður ÍAV, umfram greiðslur frá Miðborg, hafi orðið gríðarlegur.

Á þessa matsbeiðni féllst héraðsdómur með úrskurði í júlí í fyrra og kærði Miðborg úrskurðinn til Landsréttar sem staðfesti hann í september, þó með þeirri undantekningu að nokkrir nánar tilgreindir liðir matsspurningarinnar yrðu ekki lagðar fyrir matsmenn þar sem þær teldust ýmist fjalla um lögfræðileg málefni, sem heyrðu undir dómara að skera úr um, byggjast á óljósum forsendum eða vera óskýrar.

Var ný matsbeiðni lögð fram í október með umorðun og svo ein til í byrjun þess árs þar sem matsspurning eldri beiðni hafði enn verið umorðuð. Meðal annars er í nýju beiðninni óskað matsgerðar á því hvort nákvæmniskröfur, úttektaraðferðir og athugasemdir í úttektarskýrslum hafi gengið lengra en hefðbundin viðmið, venjur og staðlar um úttektir byggingarframkvæmd kveða á um.

Enn fremur á því – verði komist að niðurstöðu um að framangreint hafi gengið lengra en venjan er – hver kostnaður ÍAV hafi verið vegna þessara frávika, það er vegna lagfæringa ÍAV á grundvelli athugasemda sem hefðu ekki komið fram hefði hefðbundnum venjum, viðmiðum og stöðlum verið fylgt.

Var þess óskað að matsmenn sundurliðuðu niðurstöður sínar og gæfu upp kostnaðartölur er tækju til alls efnis og vinnu auk þess að gefa þær upp með og án virðisaukaskatts þar sem við ætti.

ÍAV hafi brugðist hratt við fyrri úrskurðum

Byggði Miðborg mótmæli sín við matsbeiðninni helst á því að þrátt fyrir umorðun matsspurningarinnar hefði ÍAV ekki bætt nægilega úr þeim vanköntum sem verið hefðu á spurningunni og væri hún ótæk með vísan til röksemda í fyrri úrskurði héraðsdóms frá því í nóvember.

Þessi höfnuðu ÍAV og byggðu þar á því að engir slíkir annmarkar væru á hinni umþrættu matsspurningu að kæmu í veg fyrir að hún næði fram að ganga. Héraðsdómur taldi ÍAV hafa brugðist hratt við fyrri úrskurðum til að bæta úr vanköntum eldri matsbeiðna auk þess sem matsmenn hefðu þegar verið dómkvaddir á grundvelli annarra matsbeiðna í málinu sem væru umfangsmiklar og fyrirséð væri að tæki nokkurn tíma að vinna úr.

Við úrlausn ágreinings aðila um matsbeiðnina bæri einkum að líta til þess málsaðilar hefðu samkvæmt lögum um meðferð einkamála forræði á sönnunarfærslu í málum á borð við þetta og réðu þar með hvernig þeir færðu sönnur á umdeild atvik. Í slíkum málum hefði málsaðilum í samræmi við þennan áskilnað laganna verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar enda þótt sá réttur gæti takmarkast af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars.

Hefði þurft að innihalda mörg þúsund liði

Hefðu ÍAV lagt ítarlegar úttektarskýrslur fyrir dóminn frá verkfræðistofunni Eflu með innfærðum athugasemdum starfsmanna ÍAV með vísunum til þeirra atriði sem rakin væru í matsspurningunni. Að mati dómsins væri þessi tilgreining nægjanleg, hefði sérstök tilgreining sérhvers atriðis sem matsspurningin nær til verið nauðsynleg hefði spurningin þurft að innihalda mörg þúsund liði.

Að því leyti sem dómkvaðning matsmanns leiddi ekki til annars hefði hann frjálsar hendur um hvaða sjónarmið hann legði til grundvallar og eftir atvikum hvaða gagna hann aflaði sér til afnota við matið, matsþolar eigi þess kost að koma athugasemdum sínum að á matsfundi. Telji matsmaður ekki unnt að svara einstökum atriðum matsspurningar skyldi geta þess í matsgerðinni með rökstuddum hætti.

Taldi héraðsdómur að lokum að fallast bæri á kröfu ÍAV um að dómkvaðning samkvæmt framlagðri matsbeiðni næði fram að ganga og staðfesti Landsréttur úrskurðinn með vísan til forsendna héraðsdómara.

Úrskurðir Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert