Leggur til að sjálfsábyrgðin verði felld niður

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, hyggst leggja fram frumvarp á …
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi eftir páska þar sem verður lagt til að sjálfsábyrgð vegna náttúruhamfara verði felld niður afturvirkt frá 1. janúar árið 2023. Samsett mynd

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi eftir páska þar sem verður lagt til að sjálfsábyrgð vegna náttúruhamfara verði felld niður afturvirkt frá 1. janúar árið 2023.

„Þetta hefur verið mjög vanhugsað þegar þetta var hækkað eins mikið og það var gert fyrir nokkrum árum síðan,“ segir Gísli í samtali við mbl.is og vísar þar til þess að upp­hæð eig­in áhættu vegna tjóna af völd­um nátt­úru­ham­fara var hækkað með laga­breyt­ingu árið 2018.

Sjálfsábyrgð vegna tjóns á íbúð er minnst 400 þúsund krónur og 200 þúsund til viðbótar vegna innbús. Þau sem urðu fyr­ir tjóni vegna snjóflóða sem féllu í Nes­kaupstað þurfa því sjálf að bera að minnsta kosti um 600 þúsund króna hlut af tjóni sínu. Ef verðmat heild­artjóns á fast­eign er meira en 20 millj­ón­ir þarf eig­andi að bera 2 pró­sent af heild­artjóni sjálf­ur og ef heild­artjón á inn­búi er meira en 10 millj­ón­ir þarf eig­andi að bera 2 pró­sent af því tjóni sjálf­ur.

„Þegar þú missir allt eins og fólkið í Neskaupstað hefur gert – húsnæði sitt, innbúið og annað – að það þurfi þá líka að hafa áhyggjur af því hvernig ætla ég að borga fyrir það að gera við?“ segir Gísli og bætir við að þessar háu upphæðir hafi mikil andleg áhrif á fólk.

Hamfaraendurtryggingar

Í tilkynningu frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands (NTÍ) í gær kom fram að lægri eig­in áhætta kalli á hærri iðgjöld.

Í tilkynningunni sagði að mik­il áhætta væri tek­in með sjóð NTÍ ef eig­in áhætt­an væri mjög lág. Kostnaður við af­greiðslu minni­hátt­ar tjóna yrði um­tals­verður auk þess sem hætta yrði á að veru­lega yrði gengið á sjóðinn í at­b­urði eins og jarðskjálfta í útjaðri höfuðborg­ar­svæðis­ins þar sem fjölda mörg hús gætu orðið fyr­ir 2-4.000 þúsund króna tjóni vegna minni­hátt­ar skemmda. 

Gísli nefnir að hægt væri að láta Náttúruhamfaratryggingu kaupa svokallaðar hamfaraendurtryggingar (e. catastophic reinsurance).

„Þetta er vel þekkt út um allan heim að tryggingafélögin endurtryggi sig hjá þessum endurtryggingafélögum,“ segir hann og bætir við að um stór erlend fyrirtæki séu að ræða, svo sem Munich RE.

Iðgjöld lægri en upphæðir borgaðar út

Gísli segir að tryggingafélögin kaupi þá tryggingu sem ná yfir ákveðnar hamfarir.

Hann nefnir dæmi um endurtryggingu gegn jarðskjálftum á höfuðborgarsvæðinu. „Þá reikna tryggingasérfræðingarnir út hversu algengt það sé að það komi jarðskjálfti á höfuðborgarsvæðinu sem að yrði nóg til að valda ákveðnu tjóni. Útfrá því eru iðgjöldin reiknuð. Iðgjöldin eru oft miklu lægri heldur en þær upphæðir sem að þú myndir fá borgað út, sér í lagi þegar þú ert meðhamfarir sem jú, geta gerst, en gerast kannski á 100 ára fresti eða 200 ára fresti. Þá reikna þeir líkurnar lægri og þar af leiðandi iðgjöldin lægri,“ segir hann og bætir við að um NTÍ borgi síðan iðgjöldin útfrá þeim iðgjöldum sem þær fá.

„Hingað til hefur það oftast verið þannig að þegar að stórar hamfarir gerast þá þarf ríkið hvort eð er oft að leggja pening til.“

Gísli segir því hægt að tryggja sérstaklega ef þúsundir húsa verði fyrir skemmdum og þar af leiðandi lækka áhættuna hjá NTÍ.

Skrámur og skurðir hverfi en áfallið situr eftir

Gísli vonast eftir að frumvarpið verði tekið fyrir sumarhlé þingsins. Frestur fyrir frumvörp þessa þings var hins vegar 1. apríl og segist hann því vona að fá undanþágu með meirihlutasamþykkt.

„Það er eiginlega næstum því óheyrt að beiðni um slík afbrigði séu felld,“ segir Gísli og bætir við að hann vonist til að safna sem flestum þingmönnum til að styðja frumvarpið. Þá mun hann einnig óska eftir meðflutningsmönnum á frumvarpinu frá öllum flokkum.

Er blaðamaður ræddi við Gísla var hann staddur í Neskaupstað.

„Þetta hefur verið svakalegt flóð sem kemur þarna yfir,“ segir hann og nefnir að skrámur og skurðir hverfi en andlegu áhrifin vari lengur.

Gísli segir að lokum að fjármunir vegna tjónsins í Neskaupstað skipti ríkið litlu máli, en íbúa öllu máli.

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert