Seðlabanki Íslands varði 7.575.000 krónum til jólagjafa starfsmanna árið 2022. Það eru mestu útgjöld opinberra stofnana, sem heyra undir forsætisráðuneytið, til jólagjafa.
Kostnaðurinn hefur aukist mikið frá 2018 en þá varði Seðlabankinn 3,6 milljónum til jólagjafa. Kostnaðurinn tók stökk árið 2020, nam þá kr. 6.141.810 og hefur farið hækkandi síðan. Seðlabankinn sameinaðist Fjármálaeftirlitinu í ársbyrjun 2020.
Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, varaþingmanni Miðflokksins, um jólagjafir opinberra starfsmanna síðustu fimm árin. Fimm opinberar stofnanir heyra undir forsætisráðuneytið.
Jólagjafareikningur Hagstofu Íslands nam 4.260.000 krónum í fyrra. Árið 2018 varði Hagstofan kr. 2.248.500 til jólagjafa. Kostnaður embættis ríkislögmanns árið 2022 nam 187.200 krónum. Jafnréttisstofa varði 124.220 krónum á síðasta ári til jólagjafa starfsmanna og kostnaður óbyggðanefndar var 50 þúsund krónur.