Framkvæmdir eru hafnar við aðalvöll Þróttar í Laugardal. Búið er að fjarlægja gamla gervigrasið og nýtt og fullkomið gervigras verður lagt á völlinn. Þetta er sögufrægur knattspyrnuvöllur því fyrsta gervigrasið hérlendis var lagt á hann árið 1984, eða fyrir tæpum fjórum áratugum.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar auglýsti útboð á verkinu „Þróttur – Keppnisvöllur. Jarðvinna og hitakerfi“ og voru tilboð opnuð 10. janúar. Fimm verktakar buðust til að vinna verkið og átti Krafla ehf. lægsta tilboðið, 237,7 milljónir króna. Það var 87,% af kostnaðaráætlun, sem var 271,5 milljónir. Tilboð Kröflu var samþykkt og hófu starfsmenn fyrirtækisins vinnu við völlinn fyrir nokkru.
Hinn 28. mars sl. voru svo opnuð tilboð í verkið „Þróttur aðalvöllur— Endurnýjun gervigrass.“ Fimm tilboð bárust frá tveimur framleiðendum/umboðsmönnum gervigrass. Voru þau á bilinu 92,2-98,7 milljónir. Kostnaðaráætlun var 98,7 milljónir. Nú er verið að fara yfir tilboðin. Í útboðslýsingu kom fram að í verkinu felist að útvega og ganga að fullu frá á nýju gervigrasi á endurnýjaðan aðalvöll Þróttar í Laugardal Reykjavík, ásamt nýjum staðsteyptum (in-situ) fjaðurlagspúða. Gervigrasið á að vera af bestu fáanlegu gæðum og uppfylla staðal Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA fyrir FIFA Quality Pro.
Samkvæmt upplýsingum Maríu Edwardsdóttur, framkvæmdastjóra Þróttar, er reiknað með að framkvæmdum við völlinn ljúki í júlí. Meistaraflokkarnir félagsins spila á meðan á Þróttheimasvæðinu (áður Valbjarnarvelli).
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.