„Pálmasunnudagur, dymbilvika og páskar eru stærsta hátíð kristinna manna. Dagarnir eru lengri en var. Allt lifnar eftir vetrardvalann og við fyllumst gleði og lotningu yfir sköpunarverkinu sem passar vel við þann upprisuboðskap sem kristin trú boðar,“ segir sr. Pétur Ragnhildarson, prestur í Fella- og Hólakirkju í Breiðholti í Reykjavík.
„Páskarnir eru sigurhátíð; inntakið er að Jesús Kristur dó og reis upp frá dauðum. Sú frásögnin er grundvöllurinn fyrir kristinni trú. Ef við ættum ekki upprisutrú væri sagan af Jesú frá Nasaret allt önnur.“
Í Breiðholtsprestakalli eru tvær kirkjur og tveir söfnuðir. Í Mjódd er Breiðholtskirkja, Tjaldkirkjan eins og hún er oft kölluð, og síðan er það Fella- og Hólakirkja í Efra- Breiðholti. Í þessu prestakalli þjóna tveir prestar, sóknarpresturinn sr. Jón Ómar Gunnarsson og sr. Pétur Ragnhildarson. Að baki á sr. Pétur langan feril í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Hann vígðist til þjónustu árið 2020 og tók við preststarfi í Breiðholti fyrir rúmu ári síðan.
Samanlagður íbúafjöldi í Breiðholtsprestakall eru rúmlega 13.400 manns og þar af er um helmingur skráður í þjóðkirkjuna. Þetta hlutfall er lægra en víða annars staðar þar sem í hverfinu býr mikill fjöldi fólks af erlendum uppruna. Margt af því er skráð í önnur trúfélög, til dæmis kaþólsku kirkjuna. Slíkt breytir því þó ekki, að börn, unglingar og fullorðið fólk úr þeim hópi sækir reglulega starfið sem kirkjan býður upp á.
Í prestakallinu er einnig starfræktur Alþjóðasöfnuðurinn svonefndi. í honum er fólk af ýmsu þjóðerni og kirkjudeildum. Prestarnir sr. Toshiki Toma og sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir halda utan um starfið þar. Þau standa til dæmis fyrir sunnudagsmessum á ensku og margvíslegu hópastarfi og fræðslustundum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.