Allar líkur á vísun til lögreglu

Fimm dauðir kettlingar sem börn á Eskifirði fundu þar í …
Fimm dauðir kettlingar sem börn á Eskifirði fundu þar í læk í byrjun mars. Facebook/Díana Margrét

„Málið er á því stigi að krufningarniðurstaða liggur fyrir, við sendum hræin af kettlingunum til krufningar á Keldum og sú niðurstaða liggur fyrir,“ segir Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðausturlandi, í samtali við mbl.is um fimm dauða kettlinga sem börn á Eskifirði fundu þar í læk í byrjun mars.

Rúv greindi fyrst frá. 

Þær upplýsingar fengust þá frá Matvælastofnun að til stæði að fá hræin til rannsóknar frá lögreglu sem hafði á frumstigum málsins tekið þá til sín.

„Ég þarf svo að eiga fund með sérgreinalækni gæludýra og lögfræðingi Matvælastofnunar strax eftir páska þar sem við tökum ákvörðun um framhald málsins,“ heldur héraðsdýralæknir áfram og segir allar líkur á að málinu verði svo í kjölfarið vísað til frekari rannsóknar hjá lögreglu.

Rannsóknarhagsmunir ekki undir

Aðspurður segir hann nokkuð um að málum vegna ólögmæts dráps eða annarrar illrar meðferðar dýra sé vísað til lögreglu. „Á okkur hvílir samt frumrannsóknarskylda í málinu en þetta náðist ekki fyrir páska. Þarna eru rannsóknarhagsmunir svo sem þannig séð ekki með þeim hætti að eitthvað fari forgörðum,“ segir Ólafur að lokum.

Í svari sínu til mbl.is í mars sagði Matvælastofnun að hugsanlega hefði verið brotið gegn 1. mgr. 15. gr. reglu­gerðar um vel­ferð gælu­dýra, nr. 80/​2016, og sömu­leiðis gegn 2. mgr. 21. gr. laga nr. 55/​2013 um vel­ferð dýra.

„Al­mennt er bannað að drekkja dýr­um með einni und­an­tekn­ingu sem snýr að villt­um mink­um að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum, sagði enn fremur í svari stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert