Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrú Landsbjargar segir að þó nokkuð sé um verkefni hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu og búið sé að kalla út flestar sveitir á svæðinu.
„Það eru að koma inn óskir um aðstoð mjög víða. Algengt er að efni sé að fjúka af byggingarsvæðum,“ segir Jón Þór. Hann segir að einnig hafi hjólhýsi, fellihýsi og bátar fokið.
Byggingarefni fýkur meðal annars frá byggingarreit nýja Landspítalans og einnig á byggingarsvæði á Bæjarhálsi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu þar sem skorað er á verktaka og aðra sem bera ábyrgð á byggingarsvæðum um að bregðast skjótt við og huga að vinnusvæðum sínum strax.
„Vegna storms á höfuðborgarsvæðinu þá eru hlutir svo sem byggingarefni og annað lauslegt nánast á flugi út um allt og hefur þegar valdið stórtjóni víða. Einnig biðjum við íbúa að huga að lausamunum. Veður mun ekki ganga niður fyrr en í kvöld,“ segir í tilkynningunni.