Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út nýjar töflur um lífslíkur fyrir Íslendinga sem lífeyrissjóðum ber að fara eftir.
Þær sýna að Íslendingar munu lifa lengur en áður var reiknað með, og yngri kynslóðir njóta fleiri eftirlaunaára en eldri kynslóðir. Hærri lífaldur þýðir að dreifa þarf áunnum eftirlaunum á fleiri ár en áður hafði verið talið.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hefur vegna þessa þurft að bregðast við. Til að eftirlaun dreifist á réttan árafjölda þurfti að lækka ávinnsluviðmið í A-deild LSR og tóku þær breytingar gildi um síðustu áramót. Þær breytingar varða ávinnslu til framtíðar, að því er kemur fram í skriflegu svari Hörpu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra LSR, við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Stjórn sjóðsins hefur einnig samþykkt breytingar á samþykktum sjóðsins sem gera ráð fyrir breytingu á áunnum réttindum. Markmið breytinganna er að færa áfallnar skuldbindingar hvers árgangs aftur í sama horf og þær voru fyrir innleiðingu nýrra lífslíkna. Það þýðir að eftir breytingar verða heildarréttindi sjóðfélaga yfir ævina aftur jafnverðmæt og þau voru samkvæmt eldri lífslíkum. Breytingin er mismikil eftir árgöngum þar sem gert er ráð fyrir mismunandi lífslíkum eftir því á hvaða aldri einstaklingar eru. Þessar samþykktir eru nú í staðfestingarferli og því er ekki hægt að gefa út nákvæmari upplýsingar en þetta að svo stöddu, að sögn Hörpu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær.