„Ekkert annað en morðhótun“

Mjóddin og Hlemmur eru með fjölförnustu umferðarmiðstöðvum strætisvagna og eins …
Mjóddin og Hlemmur eru með fjölförnustu umferðarmiðstöðvum strætisvagna og eins og loðað hefur við slíkar miðstöðvar um áratuga skeið safnast þar gjarnan ýmsir hópar saman, sumir að bíða eftir vagni, aðrir bara að spjalla eða drepa tímann. Engin myndanna með þessu viðtali tengist því máli sem hér er til umfjöllunar. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur náttúrulega gerst mjög oft að fólk reyni að sleppa við að borga en í þessu tilfelli þarna í gærkvöldi var þarna unglingur sem er í einhverju gengi sem er að þvælast þarna í Mjóddinni á hverju einasta kvöldi,“ segir vagnstjóri hjá Strætó í samtali við mbl.is en maðurinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, fékk óvægin skilaboð frá ungmenni í vagninum þegar hann kvaðst mundu kalla til lögreglu vegna háttsemi unga mannsins.

„Þeir hafa verið með leiðindi, meðal annars við farþega sem þurfa að vera þarna til að nota strætó, og líka verið í alls kyns prakkarastrikum og óknyttum, eins og að taka niður myndavélar og fleira,“ segir vagnstjórinn frá.

Mega ekki henda fólki út

Í gærkvöldi hafi hins vegar unglingur úr hópnum farið inn í vagninn um aftari dyr án þess að greiða og fengið sér svo sæti í kjölfarið. „Ég tók eftir þessu í myndavélakerfi sem við erum með í vagninum svo ég geng aftur í vagninn og bið hann að fara út. Það var greinilegt að hann var þarna í þeim eina tilgangi að fá frítt far og í slíkum tilfellum er okkur vagnstjórum leyfilegt að vísa fólki út,“ heldur hann áfram frásögn sinni.

Eiga þeir svo í nokkrum orðaskiptum án þess að laumufarþeginn sýni á sér nokkurt fararsnið. „Svo ég segi þá bara við hann að ég verði þá að kalla til lögreglu, því við megum ekki henda fólki út úr vögnunum, aðeins lögreglan má gera það og þeir vita það þessir piltar,“ segir vagnstjórinn.

Vagnstjóranum sem hér er rætt við var brugðið eftir orðaskipti …
Vagnstjóranum sem hér er rætt við var brugðið eftir orðaskipti við pilt í Mjódd í gærkvöldi. mbl.is/Hari

Hann gangi því fram í vagninn á ný, fari þar í talstöð sína og kalli á stjórnstöð. „Þá stendur þessi drengur upp og gengur að dyrunum en áður en hann fer út segir hann við mig „ef það væri engin lögga hérna þá myndi ég ganga frá þér,“ og þetta er ekkert annað en morðhótun í raun og veru sem maður verður að taka alvarlega. Þessir strákar hafa verið hérna með hnífa á sér og fólk hefur verið skíthrætt við þá,“ heldur vagnstjórinn áfram og bætir því við, aðspurður, að drengirnir sem láti svo að sér kveða í Mjóddinni séu á að giska fjórtán til sextán ára.

Samskipti við fólk almennt til fyrirmyndar

„Ég hefði hugsanlega brugðist alveg eins við ef ég hefði verið hann, ég veit það ekki, en af því að hann komst ekki upp með það sem hann ætlaði að gera varð hann fúll og leiðinlegur og ekki nóg með það, þegar mér tókst að loka hurðinni og var lagður af stað þá sparkaði hann í vagninn,“ segir hann frá.

Ekki kom þó til kasta lögreglu að þessu sinni en vagnstjóranum er þó brugðið eftir orðaskiptin og þá hótun sem berum orðum var höfð uppi í hans garð. Hvernig skyldu þá samskipti vagnstjóra við farþega ganga almennt nú á dögum, spyr blaðamaður sem minnist ýmissa væringa í strætisvögnum á sínum æskuárum þegar bláir og hvítir vagnar Landleiða óku milli sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og gjarnan kom til snarpra orðaskipta milli vagnstjóra og pottorma ýmissa er hugðust gera sig digra.

Oft er þröng á þingi á stoppistöðvunum. Unglingar á Lækjartorgi …
Oft er þröng á þingi á stoppistöðvunum. Unglingar á Lækjartorgi stíga um borð. mbl.is/Hari

„Þetta er allt saman mjög gott og gengur almennt snurðulaust fyrir sig, auðvitað er alltaf eitt og eitt atvik sem kemur upp og oft gefur maður fólki auðvitað séns í sumum tilvikum, þannig er það bara. En ég hafði samband við minn yfirmann núna áður en þú hringdir og ég sagði honum að ég væri búinn að senda tölvupóst til Strætó og hann sagði þá bara að það þýddi ekki neitt, ég skyldi hafa samband við lögreglu og kæra þetta atvik,“ segir hann og bætir því við að það sé ekki í verkahring vagnstjóranna að standa í einhverri innheimtustarfsemi ef fólk greiði ekki fargjald.

„Eins og öllum sé sama um okkur“

„Samt sem áður er talað við okkur um að við þurfum að fylgjast með hvort farþegar borgi eða ekki sem er ekki alltaf auðvelt. Nú er það þannig að ellefu ára og yngri fá frítt í strætó og svo koma auðvitað unglingar upp í fimmtán ára sem segjast vera ellefu og vilja fá frítt. Eins og minn yfirmaður sagði við mig, þetta er ekki í okkar verkahring, það eiga að vera að minnsta kosti tíu eftirlitsmenn á ferð sem fylgjast með því hvort fólk borgi eða ekki,“ segir viðmælandinn.

Þetta ákveði stjórnendur hjá Strætó en framfylgi því þó ekki að mati bílstjórans. „Það er eins og öllum sé sama um okkur bílstjórana, við eigum að fylgjast með þessu öllu saman og bera ábyrgðina, hafa höfuðverkinn og áhyggjurnar.“

Sú var tíðin, þegar sá sem hér skrifar var um …
Sú var tíðin, þegar sá sem hér skrifar var um fermingu og yngri, að vagnar Landleiða óku víða um höfuðborgarsvæðið, voru til dæmis í áætlunarakstri milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Gat þá komið til snarpra orðaskipta milli vagnstjóra og pottorma ýmissa en sjaldnast kom þó til vígaferla. Ljósmynd/Facebook-síða Fornbílafjelags Borgarfjarðar

Hvað með eftirlitsmennina, eru þeir þá ekki á ferð eins og ráð virðist gert fyrir?

„Sko, þeir eru yfirleitt frá mánudegi til föstudags, ég veit ekki nákvæmlega hvenær þeir byrja en þeir eru yfirleitt hættir um fimmleytið og eru ekki á kvöldin. Ég held þeir séu nú bara þrír núna,“ segir vagnstjórinn og kveður það áberandi að farþegar reyni að greiða lægra gjald en þeim ber.

„Hér kemur fertugt og fimmtugt fólk, fullfrískt, og borgar unglingagjald, það er ekkert hægt að stoppa það svo allir komast upp með að borga vitlaust, borga sem minnst skulum við segja,“ segir vagnstjórinn að lokum af vettvangi starfa sinna, eftir að hafa orðið fyrir óblíðri upplifun í Mjóddinni í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert