Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um meðvitundarlausan mann í Breiðholti í nótt. Hann kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás og var með sjáanlega áverka.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að viðkomandi hafi verið fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar og er málið rannsókn.
Talsverður erill var hjá lögreglunni í nótt en meðal annars barst tilkynning um slys í miðborginni þar sem maður féll nokkra metra. Lögregla fór á vettvang ásamt sjúkraliði. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku.
Í miðborginni barst einnig tilkynning um mann í annarlegu ástandi sem lægi í holu. Hann var fluttur á lögreglustöð og vistaður í klefa sökum ástands en hann gat ekki sagt til nafns eða hvar hann ætti heima sökum ölvunar. „Hann vistaður þar til rennur af honum,“ segir í dagbók lögreglu.
Þá barst tilkynning um brunalykt úr íbúð. Eigandi mætti á vettvang og hleypti lögreglu og slökkviliði inn. Eigandi hafði gleymt að slökkva á helluborði í íbúðinni en á því voru matvæli sem brunnu.
Einnig barst tilkynning um eld í heimahúsi en þar kviknaði í gardínum út frá kertum.