Lenda þurfti flugvél Play á Akureyri rétt í þessu, en hún var að koma frá París og átti að lenda klukkan 14.05 í dag á Keflavíkurflugvelli.
Var þetta gert vegna veðurs en að sögn farþega í vélinni var tvisvar sinnum reynt að lenda henni í Keflavík áður en ákveðið var að fara norður til Akureyrar.
Þá eru fimm vélar Play á Keflavíkurflugvelli þar sem ekki er hægt að hleypa farþegum úr vélunum, vegna veðursins.
Sú sem er búin að vera lengst kom frá Liverpool í Englandi og var lent klukkan 13.37.
Í upplýsingum frá Isavia segir að ástæðan fyrir því að fimm vélum var lent í Keflavík og einni snúið til Akureyrar sé vegna þess að ákvörðunin sé á ábyrgð flugstjóra hverrar vélar.
Öðru komuflugi til Keflavíkur hefur verið seinkað.
Gular veðurviðvaranir eru í gildi á Suðvesturhorninu og verða til klukkan 19 í kvöld.
Uppfært klukkan 15.52:
Farþegar vélarinnar sem lenti á Akureyri eru enn inni í vélinni en ekki er útlit fyrir að þeim verði hleypt þar út.
Þess í stað verður beðið eftir því að veðrið skáni í Keflavík og er áætlað að vélin muni leggja aftur af stað frá Akureyri klukkan 16.15-16.30.