Mannfólkið fær ekki oft að vera í miklu návígi við fálka þótt vissulega geymi Íslandssagan veiði og þjófnað á þessum virðulega fugli í gegnum aldirnar.
Dýralæknirinn Elísabet Hrönn Fjóludóttir hefur í vetur verið með íslenskan fálka í sjúkraþjálfun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum ásamt Guðrúnu Pálínu Jónsdóttur og fleira starfsfólki garðsins.
Fálkinn fannst illa á sig kominn í Breiðafirði síðsumars í fyrra en greint var frá þjálfun hans hér í blaðinu fyrir áramót. Elísabet segir það forréttindi að vera í slíkri nálægð við rándýr eins og fálkann sem á miðöldum var kallaður konungur fugla.
Þegar fálkinn fannst var fálkatemjarinn Terézia Teriko Hegerova frá Slóvakíu í starfsþjálfun hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hún vann með fuglinum til að byrja með og úr varð eins konar námskeið fyrir Íslendinga í leiðinni.
„Við höfum unnið eftir leiðbeiningum frá frá Teréziu sem hefur ungengist fálka í Slóvakíu nánast frá blautu barnsbeini. Þegar fálkinn kom til okkar var hún grindhoruð og vó um 1.100 grömm en venjulegur kvenfugl í náttúrunni ætti að vera um 1.700 grömm. Hún hafði því misst mjög mikinn massa. Í framhaldinu gerðist það að Teréziu tókst að öðlast traust fálkans en það tók þrjár vikur án þess að þvinga fuglinn í neitt,“ segir Elísabet, sem sjálf var áður héraðsdýralæknir á Vesturlandi og vann síðar á Keldum en hóf störf í Húsdýragarðinum 1. september. „Ljúfa var fyrsta verkefnið mitt og við höfum nánast verið jafn lengi í garðinum.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær.