Alls sátu 2.170 farþegar fastir í 14 flugvélum á Keflavíkurflugvelli vegna storms sem hefur gengið yfir suðvesturhornið frá því um eittleytið í dag. Byrjað er að hleypa farþegum úr vélunum og verður farið eftir lendingarröð.
Vindhviður á svæðinu hafa farið í 55 hnúta eða um 28 metra á sekúndu og því er ekki talið öruggt að hleypa farþegum og áhöfnum út úr vélunum. Þetta staðfestir Isavia við mbl.is.
Fyrst verður farþegum hleypt út úr vél Play frá Liverpool en farþegar hennar höfðu beðið í rúmlega fimm klukkustundir, þar sem vélin lenti rétt eftir klukkan 13.00 í dag.
Farþegar eru yfirvegaðir og rólegir að því er fram kemur í svari Isavia við fyrirspurn mbl.is og hafa engir viðbragðsaðilar verið kallaðir til.
Upp úr klukkan 14.00 í dag skall stormurinn á, meðal annars með þeim afleiðingum að vél Play þurfti að lenda á Akureyri en sú er nú lent á Keflavíkurflugvelli.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem farþegar hafa setið fastir í vélum á Keflavíkurflugvelli vegna veðurs; í janúar síðastliðnum voru björgunarsveitir kallaðar til í þeim tilgangi að koma farþegum úr að minnsta kosti sex vélum á vellinum.