Vestfirsk spádómsgáfa bjargaði Aldrei fór ég suður

Mugison og rokkstjórinn í gírnum fyrir vestan, búnir að moka …
Mugison og rokkstjórinn í gírnum fyrir vestan, búnir að moka öllu tónlistarfólkinu þangað með flugi, þökk sé vestfirskri veðurskyggnigáfu. Ljósmynd/Aðsend

„Heyrðu, við erum svo heppin að vera með alveg geggjaðan rokkstjóra sem sá þetta allt fyrir. Ég held hann hafi farið til miðils fyrir nokkrum vikum, hann var alla vega búinn að gera ráð fyrir þessu,“ segir Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, stofnandi og innsti koppur í búri tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður á Ísafirði.

Samkvæmt upplýsingum á vef Isavia hefur fimm flugferðum til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar verið aflýst í dag vegna veðurs en við þessu sá rokkstjórinn, Kristján Freyr. „Hann hóaði öllu liðinu upp í flugvél í gær, eða svona megninu af því,“ segir Mugison og býður blaðamanni því næst að heyra í spámanninum. „Hann stendur bara hérna við hliðina á mér,“ segir hann og réttir Kristjáni símtækið.

Út í vél „med det samme“

„Ég held að þetta sé nú bara innbyggð forsjálni hérna fyrir vestan,“ svarar rokkstjórinn, „hér hefur fólk marga fjöruna sopið og flest börn hér eru bara á leikskólaaldri þegar þau eru farin að þekkja áttirnar og vita hvaða vindátt er heppileg fyrir flugvöllinn hérna og ekki,“ segir hann af veðurinnsæi þeirra Vestfirðinga.

Kveðst Kristján hafa séð fyrir sér að veður í dag yrði ekki heillavænlegt þótt það sé að hans sögn engan veginn hræðilegt, „þessi vindátt er bara ekki hagstæð og þá fórum við í það að hringja í popparana og spyrja hvort þau væru til í að vera hérna einum degi lengur og viðtökurnar voru svona líka jákvæðar, þau voru bara öll mætt út í vel bara „med det samme“,“ segir rokkstjórinn.

„Það vex eitt blóm fyrir vestan,“ kvað Steinn Steinarr. Ærandi …
„Það vex eitt blóm fyrir vestan,“ kvað Steinn Steinarr. Ærandi gróska hefur verið í Aldrei fór ég suður sem er löngu landsþekkt tónlistarhátíð. Hver þarf að fara suður svo sem? Ljósmynd/Aldrei fór ég suður

Tónlistarfólkið mætti því til leiks í blíðskaparveðri í gær og slapp við öll hugsanleg skakkaföll vegna aflýstra flugferða. „Maður er bara hálfklökkur eftir þetta,“ lýsir Kristján yfir án þess að það megi greina á rödd hans.

Tveir og hálfur í bíl

„Miðasalan hefur gengið mjög illa og gerir það alltaf, því það er engin miðasala,“ svarar rokkstjórinn spurningu þar að lútandi og blaðamaður kyngir þeirri skömm að hafa ekki verið minnugur þess að aðgangur að hátíðinni er ókeypis, vestfirsk gestrisni sem aldrei fyrr.

„Við höfum hins vegar önnur tól til að reikna út aðsóknina, við fáum til dæmis tölur um hvernig gistirými gengur út á Ísafirði og eins Bolungarvík, Súðavík, Flateyri og á fleiri stöðum, það eru svoleiðis hlutir sem við förum eftir,“ segir Kristján og bætir því við að ekki sé sniðugt að leggja af stað til Ísafjarðar núna nema hafa tryggt sér gistingu, hann vilji sjá sem fæsta hýrast í tjaldi á þessum árstíma.

Mugison var fyrstur á svið þegar Aldrei fór ég suður …
Mugison var fyrstur á svið þegar Aldrei fór ég suður var sett í gang árið 2013 og þarna er hann enn í dag – skeggið líka. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

„Eins og við höfum bent á getur fólk samt alltaf farið í Íslendingabók og reynt að finna einhverja fjarskylda ættingja hérna fyrir vestan, komið með dýnu og bankað upp á,“ segir rokkstjórinn kankvís. „Annars er það nú það sem maður er kannski stoltastur af í kringum þessa hátíð að hér setja allir sig í gestgjafahlutverkið þessa helgi og það er það sem bjargar þessu, að við getum tekið á móti fólki.

Bara í fyrra tókum við á móti 5.000 manns, alla vega miðað við þær tölur sem við fengum frá Vegagerðinni. Þá voru hátt í 2.000 bílar sem keyrðu norður Ísafjarðardjúp og það eru að meðaltali tveir og hálfur í bíl þannig að við sjáum að við tvöföldum íbúafjöldann hérna þessa helgi,“ segir Kristján Freyr, rokkstjóri og veðurglöggur Vestfirðingur, um hátíðina Aldrei fór ég suður sem vitrast Ísfirðingum og gestum í kvöld og annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert