Á síðasta fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, hinn 30 mars, var lögð fram fyrirspurn Kanon arkitekta dagsett 24. mars 2023 um breytingu á deiliskipulagi Heimahverfis vegna lóðarinnar nr. 11-13 við Sólheima. Fyrirspurnin felst í að skipta upp lóð Langholtskirkju og nýta hluta hennar undir íbúðarbyggingu, samkvæmt uppdrætti Kanon arkitekta.
Fram kemur í fyrirspurninni til borgarinnar, sem send er fyrir hönd eigenda, að áformað sé að reisa tveggja hæða nýbyggingar á bílastæðinu fyrir framan kirkjuna, næst Sólheimum. Stærð byggingarinnar verði 770 fermetrar og fjöldi íbúða 8-10. Bílastæði á lóð nýbyggingar verði 12 talsins.
Svæðið vestan við Langholtskirkju verði óbreytt og þar verði stæði fyrir 60 bíla. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa.
Langholtssöfnuður var stofnaður árið 1952. Langholtskirkja var vígð árið 1984. Áður hafði risið safnaðarheimili við hlið hennar.