Björgunarsveitum hafa borist yfir 70 aðstoðarbeiðnir og um 60 björgunarsveitarmenn eru að störfum vegna óveðursins. Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
„Þetta byrjaði rólega um klukkan tvö með einni aðstoðarbeiðni. Þær eru núna orðnar um 70.“
Björgunarsveitir hafa sinnt ýmsum verkefnum, þar á meðal þurft að tryggja svalalokun sem var við það að fjúka.
Útköllin eru flest vegna foktjóns og er nokkuð um að þakplötur hafi losnað. Lausamunir frá iðnaðarsvæðum hafa þá fokið víða, þar á meðal í Urriðaholti skammt frá vinnusvæði byggingafyrirtækisins ÞG Verks.
„Mér finnst líklegt að okkar fólk verði þarna úti þar til fer að lægja,“ segir Jón. Búist er við því að veðrinu lægi undir kvöld.
Ekki hefur verið kallað eftir aðstoð björgunarsveita vegna farþega sem hafa ekki komist út úr flugvélum á Keflavíkurflugvelli vegna veðursins.