Á geðdeild í morðhöfuðborginni

Þórhildur Halldórsdóttir, lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, hefur …
Þórhildur Halldórsdóttir, lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, hefur marga fjöruna sopið á sínum náms- og starfsferli og þá ekki síst á ævintýralegum námsferlinum við Virginia Tech-háskólann sem var vettvangur mannskæðrar skotárásar nemanda þar áður en hún hóf þar nám. Ljósmynd/Aðsend

„Já og nei, þetta er svolítið flókin spurning,“ svarar Þórhildur Halldórsdóttir, lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í kvíða og mun fleiri geðröskunum. Upphafsspurningin var þó ekki flóknari en svo hvort hún væri úr Reykjavíkinni – en því er ekki auðsvarað.

„Ég hef búið hálfa ævina erlendis en ég var alin upp að hluta í Grímsnesinu, Reykjavík og Bandaríkjunum,“ útskýrir lektorinn sem nýlega ræddi við mbl.is um áfengisdrykkju, tóbaksnotkun og þunglyndiseinkenni íslenskra ungmenna í kjölfar heimsfaraldursins og þótti þá gefa augaleið að manneskja sem legðist í slíkar rannsóknir þyrfti að gera nánari grein fyrir ævi og störfum.

Með Kára Helgasyni manni sínum og sonunum Huga og Hróari …
Með Kára Helgasyni manni sínum og sonunum Huga og Hróari við helsta áningar- og ljósmyndunarstað Esjuhlíða. Ljósmynd/Aðsend

Faðir Þórhildar var við doktorsnám í Bandaríkjunum sem skýrir dvölina þar og bjuggu þau fjölskyldan hvort tveggja í Norður-Karólínu og Birmingham í Alabama, dýpra í Suðurríkin verður vart kafað. „Ég er hins vegar Vesturbæingur í dag en sem barn bjó ég í miðbænum og var í Austurbæjarskóla. Svo tók Menntaskólinn í Reykjavík við,“ segir sálfræðingurinn af æskuárunum.

Í portúgölsku karlaveldi

Sautján ára gömul fór Þórhildur sem skiptinemi til Portúgals og kynntist þar samfélagi með töluvert ólíkum formerkjum miðað við það sem hún þekkti til. „Ég var í pínulitlum smábæ rétt fyrir utan Lissabon. Það var skemmtileg og áhugaverð reynsla að búa í því mikla karlaveldi. Ég átti bara að vera heima með portúgölsku mömmu minni og veita henni félagsskap við að horfa á portúgalskar sjónvarpssápur og aðstoða hana við að elda og brjóta saman þvott. Það var ákveðið menningarsjokk fyrir sautján ára Íslendinginn,“ rifjar Þórhildur upp og hlær.

Að loknu stúdentsprófi lá leiðin beint í BA-nám í sálfræði við Háskóla Íslands og að prófi loknu hélt Þórhildur til Bandaríkjanna. Þegar þar var komið við sögu átti mikið vatn eftir að renna til sjávar uns hún stóð báðum fótum heimkomin á íslenskri grundu. Fyrst starfaði hún við rannsóknir í heilt ár í Bandaríkjunum áður en hún hóf doktorsnámið.

TED-samtökin í Basel í Sviss buðu Þórhildi þangað í fyrra …
TED-samtökin í Basel í Sviss buðu Þórhildi þangað í fyrra til að halda fyrirlestur um fræði sín sem hún þáði. „Ég er ekki alveg viss um hvernig þau fréttu af mér en þau eru með heilt teymi sem fylgist bæði með nýlegum greinum og samfélagsmiðlum. Það var gífurlega skemmtilegt að vinna með TED-teyminu að mótun erindisins. Svo flutti ég erindið í maí á síðasta ári og var þá komin fimm mánuði á leið með yngsta soninn. Systur mínar fóru með mér til Basel til að sjá mig flytja erindið.“ Ljósmynd/Aðsend


„Ég fékk styrk frá Stofnun Leifs Eiríkssonar sem gerði mér þetta kleift – að afla frekari reynslu í rannsóknum á börnum með ADHD [athyglisbrest með ofvirkni],“ segir Þórhildur, en stofnuninni var komið á fót til að fjármagna skipti á fræðimönnum milli Íslands og Bandaríkjanna.

Svo hóf Þórhildur samhliða meistara- og doktorsnám við Virginia Tech-háskólann í Blacksburg í Virginíu, en skólinn komst í heimsfréttirnar í apríl 2007 þegar nemandi þar skaut 32 nemendur og kennara til bana áður en hann tók sitt eigið líf. Þetta var fáeinum árum áður en Þórhildur hóf þar nám.

Lærifaðirinn Thomas Ollendick

„Ég vildi afla mér víðtækrar þekkingar á helstu geðgreiningum sem hrjá börn frekar en að einbeita mér að ákveðinni geðröskun,“ svarar Þórhildur, innt eftir vali sínu á meistara- og doktorsnáminu og ekki síður vali á skóla. „Tom Ollendick, sem var lærifaðir minn í doktorsnáminu, var með tvo risastóra rannsóknarstyrki og var að leita eftir doktorsnemum til að hjálpa á þessum tíma. Styrkirnir voru til að kanna árangurinn á meðferð við sértækri fælni sem er tegund af kvíðaröskun en einnig meðferð við mótþróaþrjóskuröskun,“ útskýrir Þórhildur.

Sló hún þar tvær flugur í einu höggi og gat sérhæft sig í meðferð við hegðunarvanda og kvíðaröskunum. „Þannig að það var eiginlega valkvíði um hvaða geðröskun ég vildi leggja áherslu á sem réð því hvert ég fór í doktorsnám,“ segir sálfræðingurinn og vottar fyrir glettni í röddinni.

Útskrift frá Virginia Tech í Blacksburg vorið 2014 eftir langt …
Útskrift frá Virginia Tech í Blacksburg vorið 2014 eftir langt og strangt nám og starf þar sem sólarhringurinn var undir. Ljósmynd/Aðsend

Þórhildur er einnig mikil áhugamanneskja um svokallaðar fylgiraskanir. Það er þegar tvær eða fleiri geðraskanir leggjast á sömu manneskju samtímis. „Staðreyndin er að flestir sem ná greiningarskilmerkjum fyrir eina geðröskun, hvort sem það eru börn, unglingar eða fullorðnir, þjást af fleiri en einni,“ segir Þórhildur frá.

Nördast á kaffihúsum í rannsóknum

Hún er spurð út í lífið í litla háskólabænum Blacksburg svo við gleymum okkur ekki alveg í geðröskunum. Í ljós kemur að þar er um dæmigert bandarískt háskólanám á framhaldsstigi að ræða, vinna frá morgni til kvölds. „Það var nokkuð algengt að sitja námskeið fyrir hádegi og eftir hádegi vinna í þessum stóru rannsóknum, sem fólst meðal annars í að leggja fyrir greiningarviðtöl eða vera með meðferð við mótþróaþrjóskuröskun eða sértækri fælni,“ segir Þórhildur og var þá þann hluta dagsins að sinna sjúklingum.

„Það var bara hluti af þessu. Þetta var mjög klínískt nám. Eftir að hafa sinnt fjölskyldum sem tóku þátt í rannsóknum fór maður í klíníkina okkar að sinna skjólstæðingum með alls konar vanda sem voru ýmist íbúar á svæðinu eða háskólanemar. Eftir að búið var að sinna skjólstæðingum þurfti maður að fara heim og læra því maður þurfti líka að taka próf og skrifa mastersritgerð. Um helgar var maður að sinna rannsóknum,“ heldur hún lýsingunni áfram áður en blaðamaður nær að spyrja hvort ekki hafi einmitt unnist tóm til að anda aðeins um helgar. Fátt var einmitt fjær.

Fótboltaleikur á heimavelli Virginia Tech og þá er átt við …
Fótboltaleikur á heimavelli Virginia Tech og þá er átt við amerískan fótbolta sem kann að minna óinnvígða meira á slagsmál en íþrótt. Lukkudýrið Hokie er hvergi sjáanlegt á þessari mynd en bannhelgi hvílir yfir því að kalla það kalkún þótt það líkist honum einna helst. Ljósmynd/Aðsend

„Þá var maður að nördast á kaffihúsi í rannsóknum og sem betur fer var maðurinn minn í doktorsnámi samhliða. Ég veit ekki alveg hvernig fólk í sambandi gæti gert þetta öðruvísi,“ segir Þórhildur hugsi en maður hennar, Kári Helgason, var í doktorsnámi í stjarneðlisfræði í Maryland-ríki. Um helgar segir Þórhildur þau hafa átt sínar gæðastundir við vinnu sína á kaffihúsum. Hljómar væntanlega sem draumalíf í eyrum flestra.

Má alls ekki kalla Hokie kalkún

Þegar talið berst að Blacksburg í Virginíu segir Þórhildur það bara örsmáan háskólabæ uppi í fjöllum sem tæmist nánast á sumrin. „En hann er voðalega skemmtilegur, þetta er mikill fótboltabær,“ segir hún og á vitanlega við ameríska fótboltann sem hið óameríska auga sér líklega oftar sem slagsmál en íþrótt.

„Lukkudýrið okkar heitir Hokie og lítur einna helst út eins og kalkúnn en það má alls ekki segja að þetta sé kalkúnn,“ segir Þórhildur og bætir því við að á fótboltaleikjunum borði áhangendur heimaliðsins stór kalkúnalæri á leikvanginum. Sinn er siður í landi hverju eins og þar segir.

„En þetta mjög dæmigerður amerískur bær, þetta er nánast eins og Simpson's-þáttur nema hvað þetta eru allt háskólanemendur. Ef maður fer á djammið eru eiginlega allir þar milli 18 og 21 árs,“ segir Þórhildur frá og rifjar upp að töluverð áskorun hafi verið að forðast að rekast á skjólstæðinga sína úti á galeiðunni.

„Maður var oftast að sinna þó nokkrum skjólstæðingum í klíníkinni sem voru Virginia Tech-nemendur eða maður rakst á fólk sem maður var að kenna og maður var kannski ekki alveg tilbúinn að vera að hanga mikið með þeim svona í næturlífinu. Við doktorsnemarnir héldum okkur yfirleitt saman og vorum mest með partý heima hjá einhverjum frekar en að fara niður í bæ seint á kvöldin,“ segir sálfræðingurinn. Skiljanlega.

Þrír nýdoktorar við Max Planck-stofnunina í München sem sumir kalla …
Þrír nýdoktorar við Max Planck-stofnunina í München sem sumir kalla hinn evrópska Harvard. Þórhildur í miðju en hinar eru Cristiana og Natalie. „Við erum mjög nánar vinkonur enn í dag,“ segir Þórhildur. Ljósmynd/Aðsend

Bjuggu úti í skógi

Þau Kári leigðu sér hús úti í skógi fyrir utan Blacksburg og lifðu því ekki hinu dæmigerða heimavistarlífi bandarískra háskólanema. „Maður vaknaði, fór út á svalir með kaffibolla og sá þá dádýr hlaupandi um,“ segir Þórhildur sem prófaði heimavistarlífið fyrsta árið sitt í skólanum. „Maður er bara í allt öðruvísi gír þegar maður er í doktorsnámi, maður er bara upptekinn af því að vera að vinna alltaf, en þau sem eru í grunnnámi eru miklu meira að djamma svo það var ágætt að vera aðeins fyrir utan það og líka bara kynnast aðeins samfélaginu þarna, ekki bara 18 ára fólki,“ segir hún og getur ekki varist hlátri.

Með samfélaginu á hún við Appalasíufólkið svokallaða (e. Appalachian) sem dregur nafn sitt af Appalasíufjallgarðinum sem teygir sig allt frá Nýfundnalandi og Labrador í Kanada suður til Alabama-ríkis Bandaríkjanna. „Þetta er nánast sérstakur þjóðflokkur, en samt er ekki alveg rétt að kalla þetta þjóðflokk, það er bara ákveðin stemmning þarna. Þetta er sérstakur hópur fólks sem oft býr við mikla fátækt og er menningarlega svolítið öðruvísi en almennir Bandaríkjamenn,“ útskýrir Þórhildur.

Synirnir þrír, eldri bræðurnir Hugi og Hróar eru átta og …
Synirnir þrír, eldri bræðurnir Hugi og Hróar eru átta og sex ára en Helgi í miðjunni er glænýr, að verða sjö mánaða. Ljósmynd/Aðsend

Meginviðfangsefni hennar innan barnasálfræðinnar í grunn- og framhaldsnáminu var samsláttur ADHD og kvíða. „Í BA-náminu á Íslandi var ég svo heppin að vinna grunnverkefnið mitt með fyrirtæki sem heitir Mentis Cura og þeir voru að gera EEG [heilarafritun, taugalífeðlisfræðilega mælingu á rafvirkni í heila] á börnum sem voru með ADHD og athuga hvort það væri næmt fyrir að greina hvort barn væri með ADHD eða ekki. Þarna komst ég inn á þá línu að fara að skoða barnasálfræði og börn með ADHD,“ segir Þórhildur frá.

Samsláttur geðraskana

Það sem hún rannsakaði við gerð meistaraprófsritgerðar sinnar var hvort kvíðaröskun ofan á ADHD drægi úr ákveðinni hugsanaskekkju sem börn með ADHD upplifðu oft. Fyrir doktorsritgerðina rannsakaði hún einnig samslátt þessara tveggja geðraskana, en í raun í hina áttina. Það er hvort ADHD hefði áhrif á árangur meðferðar við kvíðaröskun.

„Ótrúlegt en satt þá var ekki búið að kanna þetta almennilega. Kvíðameðferð felst mikið í því sem kallast berskjöldun. Þá hjálpar maður skjólstæðingi að fara hægt og rólega í þær aðstæður sem vekja upp kvíðann og vera í þeim aðstæðum nógu lengi til að upplifa að það dregur úr kvíðanum. Þetta byggir á lögmáli sem kallast viðvani.

Útskriftin í maí 2014. Til vinstri er Thomas Ollendick, prófessor …
Útskriftin í maí 2014. Til vinstri er Thomas Ollendick, prófessor við Virgina Tech og lærifaðir Þórhildar, en hægra megin er faðir hennar, Halldór Kristján Júlíusson sálfræðingur. Ljósmynd/Aðsend


Við erum sem sagt ekki líffræðilega byggð í það að upplifa kvíða í lengri tíma. Til dæmis, ef þú ert mjög hræddur við hunda og ert með hund nálægt þér í svolítinn tíma þá dregur hægt og rólega úr líkamlegu einkennunum sem fylgja kvíðanum. Í bland við berskjöldunina lærir þú einnig að hundurinn er ekkert að fara að gera eitthvað sem þú ert hræddur um að hann geri eða þá að það er ekki jafn skelfilegt og þú hélst að það væri,“ útskýrir Þórhildur.

Meðferðin krefst einbeitni þar sem líkaminn og hugurinn þurfi að fara í gegnum þetta til þess að meðferðin virki. „Það segir sig sjálft að barn með ADHD getur átt erfitt með að vera einbeitt í þessu ástandi, sem oft krefst þess að vera kyrr og rólegur, í ákveðinn tíma,“ segir Þórhildur og bætir því við að doktorsverkefnið hafi orðið kveikjan að nokkrum greinum sem hún fékk í kjölfarið birtar í fagtímaritum.

Eldskírnin í Richmond

„Eftir að ég birti yfirlitsgrein um meðferðarárangur hjá börnum með kvíða og ADHD bauðst mér tækifæri til að vinna með gögn frá stærstu slembirannsókn sem til er sem ber saman sálfræðimeðferð og lyfjameðferð við kvíðaröskunum,“ segir hún, en gögnin komu frá um 400 börnum víðs vegar um Bandaríkin.

„Þetta var í raun fyrsta stóra greinin mín og hún birtist í einu þekktasta sálfræðiritinu úti sem var auðvitað voðalega gaman,“ rifjar Þórhildur upp af náms- og vinnufargani sem hljómar algjörlega botnlaust.

Þórhildur lauk doktorsnáminu árið 2014 og hafði þá dvalið í Bandaríkjunum um sjö ára skeið. Til að hljóta doktorsgráðu í klínískri sálfræði í Bandaríkjunum þarf að ljúka kandídatsnámi á heilbrigðisstofnun sem tekur heilt ár. Þetta gerði Þórhildur á háskólasjúkrahúsinu í Richmond í Virginíu þar sem hún starfaði á barna- og unglingageðdeild auk þess að sinna ýmsum sálfræðilegum vanda hjá börnum og unglingum á öðrum deildum spítalans.

Þórhildur sótti um og fékk stöðu lektors í sálfræði við …
Þórhildur sótti um og fékk stöðu lektors í sálfræði við Háskólann í Reykjavík skömmu eftir heimkomu úr námi og var þar mest við rannsóknir fyrstu þrjú árin en er nú fastur kennari barnasálfræðinámskeiðsins þar auk þess að leiðbeina meistaranemendum sem hyggjast leggja barnasálfræði fyrir sig. Ljósmynd/Aðsend


„Ég starfaði líka á bráðamóttöku þar sem ég var mikið að taka á móti börnum og unglingum þar sem grunur lék á – eða vitneskja var um – að barnið hefði verið að reyna að skaða sjálft sig eða aðra og þurfti þá að leggjast inn,“ segir Þórhildur og nefnir enn fremur vafasama tölfræði tengda Richmond.

„Hún var lengi þekkt sem morðhöfuðborg Bandaríkjanna þótt staðan þar sé aðeins betri núna. Þarna var mikil glæpastarfsemi og ofboðsleg fátækt þannig að oft voru þetta mjög erfið mál sem maður var að sinna. Þannig að þetta var mikil lífsreynsla að vera þarna verð ég að segja,“ játar Þórhildur fúslega.

Hún segir frá fyrsta málinu sem rak á hennar fjörur á geðdeildinni í Richmond en þar hafði ung stúlka reynt að svipta sig lífi vegna nauðgunar og fóstureyðingar í kjölfarið. „Þetta voru sem sagt mjög erfið mál og oft takmörkuð úrræði í boði fyrir skjólstæðinga eftir útskrift af geðdeildinni, svo já, þetta var gífurleg reynsla,“ segir hún.

Frá Bandaríkjunum til Bæjaralands

Blaðamaður spyr hvort Þórhildur hafi ekki komið gjörbreytt manneskja heim til Íslands, hvort tveggja eftir námið sjálft en einnig alla þá reynslu sem fylgdi. Þá kemur í ljós að förinni var alls ekki heitið þangað heldur héldu þau Kári rakleiðis til Suður-Þýskalands þar sem Þórhildur tók stöðu sem nýdoktor.

„Mér fannst ég ekki vera búin að læra nóg svo ég ákvað að fara til Þýskalands og bæta við mig þekkingu í erfðafræði. Mig langaði að víkka sjóndeildarhringinn. Sálfræðimeðferð er gagnreynd og hún virkar mjög vel fyrir mjög marga. En hún virkar ekki fyrir nærri því alla, því miður. Þess vegna langaði mig að skoða hvernig erfðir hefðu áhrif á geðheilsu.

Litið upp úr bókunum á októberhátíð í september 2015 og …
Litið upp úr bókunum á októberhátíð í september 2015 og skálað í einu bjórtjaldanna á Theresienwiese í München. Ljósmynd/Aðsend


Eftir reynsluna í Richmond var ég líka mjög áhugasöm um að læra meira um áföll og streituvalda og hvenær þetta leiðir til geðræns vanda. Flestir ganga í gegnum áföll eða streituvalda á ævinni en það sem er svo merkilegt er að það er bara tiltölulega lágt hlutfall sem þróar með sér geðrænan vanda eftir slíkt,“ segir hún.

Það var því samspil umhverfis og erfða sem vakti forvitni Þórhildar en hún vann við Max Planck-stofnunina í München sem stundum hefur verið kölluð Harvard Evrópu. Þórhildur játar að hún hafi íhugað að taka aðra doktorsgráðu í heild sinni en þarna hafi barneignir hins vegar verið farnar að taka sinn toll og hreinlega varð ekki á allt kosið.

Þau Kári dvöldu í Þýskalandi í þrjú og hálft ár þegar upp var staðið. „Þetta var þrusugaman og ofboðslega lærdómsríkt líka,“ segir Þórhildur frá, svo ekki sé minnst á viðbrigðin að koma úr langri Bandaríkjadvöl yfir í gjörólíka siði og venjur í hinu þýska Bæjaralandi.

Fussað og sveiað á biðstofunni

„Og suðurþýskt þar að auki, það er miklu íhaldssamara en maður hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér. Ég náttúrulega kem úr amerísku samfélagi þar sem ég vinn alltaf, svara alltaf tölvupósti og það er aldrei verið að ónáða mig þannig séð. Svo kem ég til Þýskalands og fæ varla tölvupóst á föstudögum af því að það er að koma helgi,“ segir Þórhildur hlæjandi og bætir því við að ekki hafi verið síður áhugavert að upplifa kynjahlutverkin í Suður-Þýskalandi.

„Þegar ég var ófrísk á leiðinni í reglubundna skoðun hjá mæðravernd og sat á biðstofunni var ég oft með tölvuna til að vinna á meðan ég beið. Þetta voru mun fleiri skoðanir en hér á Íslandi og oft þurfti aðeins að bíða eftir að hitta lækninn. Þá var fussað og sveiað yfir því að ég væri með tölvuna.

Á fyrrnefndum TED-fyrirlestri í Sviss í fyrra. TED stendur fyrir …
Á fyrrnefndum TED-fyrirlestri í Sviss í fyrra. TED stendur fyrir technology, entertainment og design eða tækni, afþreyingu og hönnun og spanna fyrirlestrar á vegum samtakanna nánast öll svið mannlegrar þekkingar. Ljósmynd/Aðsend


Þetta var alls ekki talið nógu gott og ritararnir á biðstofunni sögðu mér reglulega að ég ynni of mikið. Auk þess var ég oft spurð innan um fólk sem þekkti mig, ef ég var bara með annað barnið: „Hvar er hitt barnið þitt?“ eins og ég ætti ekki maka sem gat vel séð um hitt barnið,“ segir Þórhildur frá og skellir upp úr við minningarnar frá Þýskalandi.

„Þarna fara konur hiklaust í tveggja ára fæðingarorlof. Þær bíða þar til þær eru orðnar aðeins eldri og orðnar vel settar í vinnunni og fara þá að eignast börn. Það er því algengt að þær séu þá frá vinnumarkaði í tvö eða fleiri ár sem er frábært fyrir þær mæður sem hafa áhuga á því,“ heldur hún áfram.

Líðan unglinga eftir faraldurinn

Þar með erum við komin til ársins 2018, Kári og Þórhildur búin að ala manninn erlendis síðan fyrir bankahrun og að lokum tímabært að hverfa á ný að fósturjarðar strönd og hlíðum – þó ekki slakað á keyrslunni um millimetra.

„Þá fer ég að vinna með Unni Valdimars í áfallasögunni, kem inn þegar allt er á fullu þar,“ segir Þórhildur frá og blaðamann grunar eitt augnablik að loks hljóti barnasálfræðingurinn að hafa þurft að leita sér aðstoðar eftir öll áföllin í morðhöfuðborg Bandaríkjanna og vinnu allan sólarhringinn. Auðvitað reynist það þó helber misskilningur því þarna er um að ræða rannsóknina Áfallasögu kvenna sem Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor leiðir.

Þórhildur fór að vinna með Unni í áfallasögu kvenna eftir …
Þórhildur fór að vinna með Unni í áfallasögu kvenna eftir heimkomuna en er hér með sonunum við hringleikahúsið forna. Ljósmynd/Aðsend

Þórhildur bætir þarna við sig nýdoktorsnámi númer tvö, að þessu sinni í lýðheilsufræði, en þó einungis í rúmt ár þar til hún sækir um og fær stöðu lektors við Háskólann í Reykjavík. Það er svo í gegnum þá stöðu sem Þórhildur kemur að rannsókninni á líðan íslenskra unglinga í kjölfar heimsfaraldursins sem tæpt var á hér í upphafi.

„Sú rannsókn spratt af áhuga mínum á að rannsaka streituvalda og líðan hjá börnum og unglingum. Ég var komin inn í samstarf með því góða fólki sem stendur að Rannsóknum og greiningu. Þá er ég einhvern tímann að tala við Ingibjörgu Evu [Þórisdóttur, sérfræðing hjá Planet Youth] sem vinnur hjá þeim og einmitt að velta því fyrir mér hvort ekki sé hægt að nota þessi gögn til að kíkja á þetta,“ segir hún frá.

Þar á Þórhildur við spurningalista sem Rannsóknir og greining leggja fyrir íslenska grunnskólanemendur ár hvert og spyrja út í áfengisneyslu, líðan og fleira en gögn þessi eru einstök á heimsvísu þar sem engin önnur lönd eiga slíkar upplýsingar á landsvísu bæði fyrir og eftir heimsfaraldurinn. Um þessa rannsókn hefur Þórhildur ritað tvær greinar og ræddi hún niðurstöðurnar við mbl.is nú í mars.

Með systrunum og afkvæmum á Þýskalandsárunum.
Með systrunum og afkvæmum á Þýskalandsárunum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var einstakt tækifæri til að kanna þetta á algjörlega fordómalausan hátt þar sem engin önnur lönd geta í raun kíkt á þetta með þessum hætti,“ segir lektorinn sem sinnir kennslu og rannsóknum hjá Háskólanum í Reykjavík þótt meira hafi verið um rannsóknir en kennslu fyrstu þrjú ár hennar við skólann.

Crossfit oft í viku

Þórhildur kennir námskeið í klínískri barnasálfræði en kennsla hennar er mest á meistarastigi sálfræðideildarinnar auk þess sem hún er leiðbeinandi við ritgerðaskrif meistaranema. „Ég tek þátt í því að þjálfa þá nemendur sem geta sótt um leyfi til að starfa sem sálfræðingar að námi loknu,“ segir Þórhildur af starfsvettvangi sínum en hún er reyndar í fæðingarorlofi þessa önn þar sem þriðja barn þeirra Kára er komið til sögunnar. Litlar líkur eru þó á að hún hverfi af vinnumarkaði í tveggja ára fæðingarorlof eins og hún þekkir úr þýsku samfélagi.

Þrátt fyrir að líf Þórhildar Halldórsdóttur, lektors og barnasálfræðings, virðist ekki einkennast af frístundum og hangsi, alltént ekki sé litið til lýsinganna á framhaldsnámi hennar um allan heim, eru frístundir og áhugamál jafnan skylduspurning í viðtölum um líf fólks og ástríðu í fræðum og framkvæmd. Svo hvað skyldi hún gera sér til dundurs þegar hún er ekki á kafi í geðheilsu barna og unglinga?

„Ég er í crossfit og fer oft í viku í það. Ég hef líka áhuga á líkamsrækt almennt,“ svarar hún, „þar fyrir utan eru það ferðalög. Ég held ég sé nú bara mjög leiðinleg að þessu leyti, þetta er mjög óspennandi eða þannig,“ segir Þórhildur og hlær en þess má geta að stjarneðlisfræðingurinn Kári maður hennar, sem lítið hefur verið getið hér nema rétt til að gefa í skyn að hann sé til, starfar hjá Carbfix, fyrirtækinu sem bindur loftslagsóheppilegar lofttegundir við berg djúpt í jörðu niðri uppi á Hellisheiði. Börnin eru sex og átta ára og nú kominn einn glænýr í hópinn.

„Ég held ég sé nú bara mjög leiðinleg að þessu …
„Ég held ég sé nú bara mjög leiðinleg að þessu leyti, þetta er mjög óspennandi eða þannig,“ segir Þórhildur af áhugamálunum sem hún deilir þó líkast til með fjölda Íslendinga, líkamsrækt og ferðalögum. Hafa ekki flestir snefil af áhuga þar? Ljósmynd/Aðsend

Þórhildur er dóttir þeirra Ólínu Guðmundsdóttur, fyrrverandi skurðhjúkrunarfræðings, og Halldórs Kristjáns Júlíussonar sálfræðings og á því ekki langt að sækja áhuga sinn á heilbrigðisstéttum og framtíðarhorfurnar eru auk þess skýrar.

„Eftir nokkur ár verð ég búin að leysa þetta með hvers vegna aukning er í vanlíðan, þá sérstaklega þunglyndi og kvíða, hjá ungmennum,“ segir Þórhildur í gamansömum tón, „nei nei, ég segi nú bara svona, en ég mun auðvitað halda áfram að rannsaka þetta. Það er ákveðið markmið og ég ætla bara að nota öll tæki og tól hvort sem þau eru úr sálfræðinni eða erfðafræðinni eða jafnvel úr lýðheilsufræðum. Og svo er bara að halda áfram að læra til að geta gert þetta. Það eru framtíðarhorfurnar,“ segir Þórhildur Halldórsdóttir lektor að lokum. Gleðilega páska.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert