Andlát: Sigurlaug Bjarnadóttir fv. alþingismaður

Sigurlaug Bjarnadóttir.
Sigurlaug Bjarnadóttir.

Sigurlaug Bjarnadóttir, fyrrverandi alþingismaður og framhaldsskólakennari, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, miðvikudaginn 5. apríl, 96 ára að aldri.

Sigurlaug fæddist í Vigur í Ísafjarðardjúpi 4. júlí 1926 og var dóttir Bjarna Sigurðssonar (1889-1974) bónda og hreppstjóra í Vigur og Bjargar Björnsdóttur húsmóður (1889-1977). Hún var yngst í hópi sex barna þeirra hjóna.

Sigurlaug varð stúdent frá MA 1947, lauk BA-prófi í ensku og frönsku við Leeds-háskóla 1951 og stundaði framhaldsnám í bókmenntum við Sorbonne-háskóla 1951–1952. Var kennari við Gagnfræðaskóla Akraness 1947–1948 og blaðamaður við Morgunblaðið 1952–1955. Hún var enskukennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar, Reykjavík 1956–1966 og stundakennari við Málaskólann Mími 1960–1961. Lengst var hún frönskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð eða frá 1967–1994.Sigurlaug var borgarfulltrúi í Reykjavík 1970–1974. Hún var og í hópi tíu fyrstu kvennanna sem var kjörin á Alþingi. Sat þar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestfjarðakjördæmi 1974-1978 og sem varaþingmaður flokksins frá 1980-1983. Á Alþingi lét hún meðal annars mennta- og heilbrigðismál til sín taka sem og málefni sem tengdust Vestfjörðum og hagsmunum byggða þar. Þá skrifaði Sigurlaug bókina Með storminn í fangið: sérframboð á Vestfjörðum 1983: svipleiftur úr íslenskri pólitík 9. áratugarins. Einnig gegndi Sigurlaug ýmsum trúnaðarstörfum, þar á meðal sem formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 1975–1979, í menntamálaráði 1979–1983, formaður Æðarræktarfélags Íslands 1983-1991 og formaður Félags frönskukennara á Íslandi um árabil.

Eiginmaður Sigurlaugar var Þorsteinn Thorarensen lögfræðingur og bókaútgefandi (1927-2006). Þau eignuðust þrjú börn, Ingunni, grunnskólakennara, f. 1955, Björn, tölvunarfræðing og tónlistarmann, f. 1962 og Björgu, hæstaréttardómara, f. 1966.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert